Fótbolti

Lyftu sér upp í annað sætið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason er lykilmaður í varnarleik Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason er lykilmaður í varnarleik Panathinaikos. Getty/Peter Lous

Sverrir Ingi Ingason og félagar hans í Panathinaikos eru í harðri baráttu um sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð. Liðið vann mikilvægan sigur í kvöld.

Fyrir leikinn í kvöld var AEK Aþena í öðru sæti deildarinnar en Panathinaikos í fjórða sætinu. Heimamenn í Panathinaikos gátu hins vegar jafnað nágranna sína að stigum með sigri og leikurinn því gríðarmikilvægur.

Sverrir Ingi var á sínum stað í miðri vörn Panathinaikos sem náði forystunni á 17. mínútu og leiddi 1-0 í hálfleik. Gestirnir jöfnuðu strax í upphafi síðari hálfleiks en á síðustu tíu mínútunum náðu heimamenn að lauma inn tveimur mörkum og tryggja sér 3-1 sigur.

Sigurinn þýðir að Sverrir Ingi og félagar fara upp í 2. sætið en tvö efstu liðin fara í undankeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð. AEK er með jafnmörg stig og PAOK stigi á eftir. Tíu stig eru upp í topplið Olympiakos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×