Davíð Snær gekk til liðs við Álasund fyrir rúmu ári síðan frá FH en hann er uppalinn hjá Keflavík. Hann var í byrjunarliði Álasunds í dag sem mætti Sogndal á útivelli en þetta var annar leikur liðanna á tímabilinu í Noregi.
Leikurinn var sannkallaður markaleikur. Gestirnir komust yfir á 30. mínútu eftir sjálfsmark heimamanna en Sogndal náði að snúa leiknum sér í vil og leiddi 2-1 í hálfleik eftir tvö mörk á fimm mínútna kafla.
Lið Álasund jafnaði metin á 52. mínútu og komst í forystu tuttugu mínútum seinna. Lið Sogndal virtist hins vegar vera að tryggja sér eitt stig í leiknum þegar liðið jafnaði metin á annarri mínútu uppbótartíma en á lokasekúndum leiksins var það Davíð Snær Jóhannsson sem skoraði sigurmarkið í leiknum og tryggði Álasund dramatískan sigur.
Davíð Snær skoraði einnig í fyrsta leik Álasund gegn Lilleström og er því kominn með tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.
Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham Kam sem var í heimsókn hjá meisturum Bodö/Glimt. Skemmst er frá því að segja að Bodö/Glimt vann öruggan 3-0 sigur og er því með fullt hús stig eftir tvær umferðir. Ham Kam er með þrjú stig eftir tvo leiki.