Madrid var með 1-0 forystu eftir fyrri leikinn, sem fór fram í febrúar á heimavelli Sociedad. Sá leikur var fremur tíðindalítill en allt annað var uppi á teningunum í kvöld.
Ander Barrenetxea skoraði fyrir Sociedad og jafnaði einvígið eftir aðeins stundarfjórðung, en Endrick kom Madrid aftur yfir áður en fyrri hálfleik lauk.
Tvö mörk Sociedad um miðjan seinni hálfleik settu síðan allt í uppnám fyrir Madrid. David Alaba setti boltann óvart í eigið net og Mikel Oyarzabal skoraði síðan þriðja mark Sociedad.
Þá þurfti Madrid að sækja og gerði það af krafti, Jude Bellingham og Aurelien Tchouameni skoruðu mörk með skömmu millibili.
Eftir svaðalega sveiflukenndan leik stefndi þá í 3-3 jafntefli í leiknum og 4-3 sigur Madrid í einvíginu, en á þriðju mínútu uppbótartíma setti Mikel Oyarzabal sitt annað mark og sendi leikinn í framlengingu, með 4-3 sigur Sociedad en jafna 4-4 stöðu í einvíginu.
Orri Steinn kom inn á í seinni hálfleik framlengingar, nýbúinn að jafna sig af veikindum.
Leikurinn fór hins vegar ekki í vítaspyrnukeppni því Antonio Rudiger reis upp á 115. mínútu og stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu Arda Guler. Lokatölur leiksins 4-4 en 5-4 fyrir Madrid í einvíginu.
Real Madrid mun mæta annað hvort Barcelona eða Atlético Madrid í úrslitaleiknum. Staðan í því einvígi er 4-4 eftir fyrri leikinn og seinni leikurinn fer fram á morgun.