Aron Guðmundsson skrifar frá Pristina í Kósovó.
Það eru samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur milli liðanna sem skera úr um hvort liðið tekur sæti í B-deildinni. Sigurliðið fer í B-deild, tapliðið mun leika í C-deild frá og með næsta tímabili.
Leikur kvöldsins er fyrsti leikur Íslands undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar. Hann er meðvitaður um þá staðreynd að margir leikmenn liðsins séu á hættusvæði er varðar leikbann vegna gulra spjalda en aðeins þarf til tvö gul spjöld í Þjóðadeildinni svo leikmenn fái eins leiks bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda.
Leikmennirnir sjö sem myndu ekki geta tekið þátt í seinni leik liðanna í Murcia á sunnudaginn kemur fái þeir gult spjald í kvöld eru landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson, Arnór Ingvi Traustason, markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson, Mikael Egill Ellertsson, Andri Lucas Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson.
Aðspurður á blaðamannafundi hvort kæmi til greina að taka inn nýjan leikmann í hópinn í ljósi meiðsla Mikaels Neville Anderson nefndi Arnar landsliðsþjálfari leikmennina sem eru á hættusvæði.
„Það eru nokkrir leikmenn sem eiga hættu á að fara í leikbann og svo veit maður aldrei hvað gerist varðandi meiðsli. Við áskiljum okkur þann rétt að kalla inn leikmenn ef þurfa þykir," sagði Arnar en það yrði þá í fyrsta lagi eftir leik kvöldsins.
Það er uppselt á leik Kósovó og Íslands í Pristina í kvöld. Völlurinn tekur um fjórtán þúsund manns í sæti. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport og hefst klukkan korter í átta. Klukkan korter yfir sjö hefst hins vegar upphitunarþáttur.