Fótbolti

Hákon einn sá dýrasti og talinn kosta 6,7 milljarða

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson á ferðinni gegn Dortmund í vikunni, þegar Evrópuævintýri Lille lauk með 2-1 tapi.
Hákon Arnar Haraldsson á ferðinni gegn Dortmund í vikunni, þegar Evrópuævintýri Lille lauk með 2-1 tapi. AP/Michel Euler

Hákon Arnar Haraldsson, nýr varafyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, er talinn þriðji verðmætasti leikmaður frönsku 1. deildarinnar, ef leikmenn PSG eru undanskildir.

Eftir að hafa fótbrotnað í upphafi þessarar leiktíðar komst Hákon aftur á ferðina í lok nóvember og hefur síðan farið á kostum með liði sínu Lille, bæði í frönsku deildinni og í Meistaradeild Evrópu.

Hann hefur því óhjákvæmilega hækkað í verði og samkvæmt rannsóknarhópnum CIES í Sviss, sem sérhæfir sig í tölfræðigreiningum í fótbolta, er Hákon nú metinn á 45,9 milljónir evra eða um 6,7 milljarða króna miðað við gengi dagsins.

Það jafngildir í dag 38,6 milljónum punda sem er rétt undir verðinu sem Everton greiddi fyrir Gylfa Þór Sigurðsson 2017 en hann er dýrasti Íslendingur sögunnar eftir að hafa verið keyptur á 40 milljónir punda.

Hákon, sem verður 22 ára í næsta mánuði, kom til Lille frá FC Kaupmannahöfn sumarið 2023 fyrir 15 milljónir evra. Samningur hans gildir til 2028. Hann er þó enn aðeins metinn á 9 milljónir evra hjá Transfermarkt, gagnabanka um fótboltamenn og samninga þeirra.

Samkvæmt CIES eru aðeins tveir leikmenn utan PSG dýrari en Hákon í frönsku deildinni. Sá dýrasti er Eliesse Ben Seghir hjá Monaco, sem er 20 ára landsliðsmaður Marokkó, en næstur er Mason Greenwood, fyrrverandi leikmaður Manchester United, sem nú er á mála hjá Marseille.

Hákon hefur skorað fjögur mörk í sautján deildarleikjum með Lille sem er í 5. sæti frönsku deildarinnar, aðeins fjórum stigum frá 2. sætinu. Þá skoraði hann tvö mörk í tíu leikjum í Meistaradeild Evrópu þar sem Lille komst í 16-liða úrslit en féll úr keppni í gær eftir 2-1 tap á heimavelli gegn Dortmund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×