Fótbolti

Ætla að vera fyrst til að græða pening á kvennamóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í íslenska landsliðinu vann Þýskaland í undankeppni EM 2025.
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í íslenska landsliðinu vann Þýskaland í undankeppni EM 2025. Getty/Hulda Margrét

Það er mikill áhugi á því að halda Evrópumeistaramót kvenna í fótbolta árið 2029 sem sýnir og sannar enn frekar sókn kvennafótboltans.

Næsta Evrópumót fer fram í Sviss í sumar og þar verður íslenska kvennalandsliðið meðal þátttökuliða. Íslenska liðið er með á fimmta Evrópumótinu í röð.

Nú fer líka að koma að því að velja næstu gestgjafa á EM eftir fjögur ár þar sem íslensku stelpurnar verða vonandi með líka.

Ítalía, Pólland og Portúgal hafa tilkynnt um áhuga sinn að halda EM 2029 en Þýskaland mun einnig sækja um mótið. ESPN segir frá.

Þjóðverjar hafa einnig sett sér metnaðarfullt markmið. Þeir vilja verða þeir fyrstu til að græða pening á kvennamóti. Samkvæmt framboði þeirra hefur engum tekist það hingað til að græða pening á því að halda stórmót í kvennafótbolta.

Þjóðverjar ætla að nota mótið til að auka þáttöku kvenna í fótbolta út um alla álfuna, auka sýnileika íþróttarinnar og auðvelda öllum að vera með.

Þýskaland hélt EM kvenna 1989 og 2001 en það voru minni móti. Aðeins fjögur lið tóku í lokaúrslitunum 1989 en þau voru orðin átta árið 2001. Þjóðverjar héldu einnig HM kvenna 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×