Fótbolti

Hákon hjálpaði liði sínu að setja met í frönsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekki auðvelt að ná boltanum af Hákoni Arnari Haraldssyni og hér hefur Dortmund leikmaðurinn Pascal Gross brotið á íslenska landsliðsmanninum.
Það er ekki auðvelt að ná boltanum af Hákoni Arnari Haraldssyni og hér hefur Dortmund leikmaðurinn Pascal Gross brotið á íslenska landsliðsmanninum. Getty/Marcel Bonte

Hákon Arnar Haraldsson og félagar í franska félaginu Lille hituðu upp fyrir mikilvæga viku í Meistaradeildinni með því að setja nýtt met í frönsku deildinni, Ligue 1, um helgina.

Lille mætir Borussia Dortmund í seinni leik liðanna í sextán liða úrslit og er á heimavelli eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Þýskalandi. Hákon skoraði markið og var valinn maður leiksins.

Um helgina vann Lille 1-0 sigur á Montpellier í frönsku deildinni og setti nýtt met með því að vera 76 prósent með boltann í leiknum. Ekkert annað lið í frönsku deildinni hefur náð slíkri tölfræði í einum leik síðan byrjað var að taka slíka tölfræði saman hjá Opta árið 2006.

Jonathan David skoraði eina mark liðsins en Lille var með mikla yfirburði í leiknum og bjó til 1,54 mörk í áætluðum mörkum (xG).

Hákon Arnar átti mjög fínan leik þótt að hann hafi ekki átt beinan þátt í sigurmarkinu.

Hann spilaði í 76 mínútur í leiknum og átti þrjú skot. 88 prósent af 56 sendingum hans heppnuðust (49) og hann bjó til fjögur færi fyrir liðsfélagana.

Hákon kom alls fimm sinnum við boltann í vítateig mótherjanna og vann boltann fimm sinnum.

Nú verður spennandi að sjá hvort Lille takist að klára dæmið og komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×