Fótbolti

Sæ­dís mætir Palestínu

Sindri Sverrisson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir vann stóru titlana tvo í Noregi í fyrstu tilraun, með Vålerenga á síðustu leiktíð.
Sædís Rún Heiðarsdóttir vann stóru titlana tvo í Noregi í fyrstu tilraun, með Vålerenga á síðustu leiktíð. Getty/Marius Simensen

Norsku meistararnir í Vålerenga, með landsliðsbakvörðinn Sædísi Rún Heiðarsdóttur innanborðs, spila vináttuleik við landslið Palestínu á heimavelli sínum í Osló þann 6. apríl næstkomandi.

Vålerenga greinir frá þessu í fréttatilkynningu og segir að tilgangurinn sé að spila alþjóðlegan leik en um leið að „sýna stuðning með fólki sem áfram þarf að þola þjáningu, og þar sem ljósir punktar hafa enn meiri þýðingu.“

Harriet Rudd, formaður Vålerenga, segir að ætlunin sé að ýta undir stuðning við börn og ungmenni í Palestínu.

„Í gegnum fótboltann getum við skapað samspil og skilning á milli þjóða og menningarheima. Þess vegna er það sérstaklega gott að geta tekið á móti alþjóðlegum liðum á Intility Arena,“ sagði Rudd samkvæmt NRK.

Landslið Palestínu var stofnað árið 2003 og hóf að spila landsleiki árið 2005. Vináttuleikurinn við Vålerenga verður þriðji leikurinn sem Palestína spilar í Evrópu.

Sædís, sem er tvítugur Ólafsvíkingur, kom til Vålerenga frá Stjörnunni fyrir ári síðan og varð tvöfaldur meistari á síðustu leiktíð. Liðið leikur því í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar. Ný leiktíð hefst í norsku úrvalsdeildinni eftir tæpan mánuð og tekur Vålerenga á móti Kolbotn 23. mars í fyrstu umferð.

Sædís er núna stödd með íslenska landsliðinu í Frakklandi þar sem það mætir heimakonum í Þjóðadeildinni í kvöld, klukkan 20:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×