Formúla 1

Dómur fallinn: „Þetta var viðbjóðs­legt af mér og ég tek fulla á­byrgð“

Aron Guðmundsson skrifar
Michael Schumacher, einn allra besti ökuþór allra tíma
Michael Schumacher, einn allra besti ökuþór allra tíma Vísir/getty

Þrír menn hafa verið dæmdir í Þýska­landi fyrir að hafa reynt að kúga fé frá fjöl­skyldu For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher með því að hóta því að birta viðkvæmar upp­lýsingar úr sjúkra­skrám hans sem og myndir af honum.

Michael Schumacher, sjöfaldur heims­meistari í For­múlu 1, lenti í skíða­slysi árið 2013 í Ölpunum. Michael, sem er án efa þekktasta nafn í sögu For­múlu 1 hélt einkalífi sínu alltaf utan kastljóss fjölmiðla á meðan á ferli hans í For­múlu 1 stóð og hefur fjöl­skylda hans haldið í það fyrir­komu­lag eftir að Michael lenti í slysinu.

Því er lítið vitað um stöðuna á þýska ökuþórnum og í raun ekkert spurst til hans frá árinu 2013.

Það var fyrr­verandi líf­vörður Michael Schumacher, maður að nafni Markus Fritsche, sem fékk nokkra harða diska í hendurnar með af­riti af sjúkra­skrám Schumacher sem og yfir 1500 myndir og mynd­skeið af honum. Efninu hafði verið stolið af tölvu og ekki er vitað hvar einn af um­ræddum hörðu diskum er niður kominn í dag.

Fritsche kom hörðu diskunum á mann að nafni Yilmaz Toztur­kan sem fékk það verk­efni að reyna að hafa fé af Schumacher fjöl­skyldunni með því að hóta þeim því að gögnin yrðu birt opin­ber­lega.

Yilmaz Toztur­kan fékk þriggja ára fangelsis­dóm, sonur hans Daniel Lins sen var með í ráðum fékk sex mánaða skil­orðs­bundinn dóm. Fritsche sjálfur fékk tveggja ára skil­orðs­bundinn dóm.

Yilmaz, sem sat nú þegar af sér annan dóm í fangelsi þegar að um­ræddur dómur var kveðinn upp, þver­tekur fyrir það að hafa reynt að kúga fé af Schumacher fjöl­skyldunni: „Þetta var bara við­skipta­til­boð sem ég bauð þeim,“ sagði hann er hann bar vitni í dóms­sal en áður en dómur var kveðinn upp sagðist hann iðrast gjörða sinna.

„Mér þykir þetta leitt, ég skammast mín. Þetta var viðbjóðs­legt af mér og ég tek fulla ábyrgð á mínum gjörðum.“

Schumacher fjöl­skyldan ætlar hins vegar ekki að una niður­stöðu dómstóla sem hún telur afar væga. Til skoðunar er að áfrýja dómnum.

„Við unum ekki niður­stöðu dómstólsins. Þið getið full­vissað ykkur um að við munum kanna allar laga­legar leiðir í fram­haldinu,“ lét Thilo Damm, verjandi Schumacher fjöl­skyldunnar hafa eftir sér. „Við vitum ekki hvar einn af hörðu diskunum er í dag og því er til staðar þá mögu­leiki að önnur hótun berist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×