Körfubolti

Tveir leikja­hæstu þjálfarar efstu deildar mætast: „Höfum verið lengi í þessu“

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurður Ingimundarson og Friðrik Ingi Rúnarsson leiða saman hesta sína í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld.
Sigurður Ingimundarson og Friðrik Ingi Rúnarsson leiða saman hesta sína í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld. Vísir/Samsett mynd

Sigurður Ingi­mundar­son er mættur aftur í brúnna hjá karla­liði Kefla­víkur og fær það verðuga verk­efni að snúa gengi liðsins í Bónus deildinni við. Fyrsti leikur hans með liðið er í kvöld gegn Haukum. Þar mætast stálin stinn, Sigurður Ingi­mundar­son og Friðrik Ingi Rúnars­son.

Sigurður á móti Friðriki Inga. Báðir eiga þeir yfir farsælum ferli og mörgum Íslands- og bikarmeistaratitlum að skipa á toppi íslensk körfubolta. Friðrik lengst af hjá Njarðvík og Sigurður hjá Keflavík, nágrannaliðin og erkifjendurnir.  

Það eru ekki margir sem hefðu hugsað út í það á sínum tíma að árið 2025 að þið væruð að fara leiða ykkar hesta saman í leik.

„Nei þegar að þú segir það,“ svarar Sigurður. „Við höfum nú verið lengi í þessu, bæði ég og Friðrik, mætt hvor öðrum en líka unnið saman í þessu. Það verður bara áhuga­vert og skemmti­legt að mæta honum aftur.“

Friðrik Ingi Rúnarsson skrifaði undir samning til sumarsins 2027 við Hauka fyrr á tímabilinu og þó svo að liðið vermi botnsæti deildarinnar hefur spilamennskan verið á uppleið undir stjórn hans.Facebook/@haukarbasket

Auk þess að vera þjálfari karla­liðs Kefla­víkur er Sigurður einnig þjálfari kvenna­liðsins, tók við því ein­mitt eftir að leiðir liðsins og Friðriks Inga skildu fyrr á tíma­bilinu.

Tölfræðisíðan Stattnördarnir hafa fyrir þennan fyrsta leik í endurkomu Sigurðar Ingimundarsonar í efstu deild karla tekið saman tölfræði frá hans þjálfaraferli í deildinni:

- Sigurður hefur stýrt liði í 379 deildarleikjum og unnið 263, sigurhlutfall upp á 69,4%

- Í úrslitakeppni hefur hann stýrt liði í 113 leikjum og unnið 68 sem er sigurhlutfall upp á 60,2%

- Samtals gera þetta 492 leikir í efstu deild og 331 sigrar. Sigurhlutfall upp á 67,3%

- Sigurður er í öðru sæti yfir heildarfjölda leikja í efstu deild, deildar- og úrslitakeppni Friðrik Ingi er efstur með 580 leiki

Endilega fylgið Stattnördunum á Facebook.

Það er eitt að snúa til baka og taka við einu liði. En svo æxlast málin þannig að þú þarft að taka við karla­liði Kefla­víkur líka. Þurftirðu að hugsa þig eitt­hvað um þegar að það var leitað til þín varðandi það verk­efni?

„Ef ég hefði hugsað mikið um þetta, þá hefði ég lík­legast ekki gert þetta. Nei staðan er bara sú að þeir eru komnir í leiðin­leg mál. Þetta góða lið. Enginn vill sjá þá þar. Mér fannst bara skylda mín að hoppa á þetta og reyna að gera mitt besta til að hjálpa þeim. Ekki spurning.“

Hefur gengið bölvanlega

Hvað hefur vantað upp á hjá því liði?

„Erfitt að segja. Framan af tíma­bili eru þeir að berjast í topp­baráttunni og svo virðist eitt­hvað gerast. Þeir bara tapa og eftir áramót hefur þetta gengið bölvan­lega. Það er oft þannig að þegar það byrjar að ganga illa er oft erfitt að snúa því við. Oft er ekkert hægt að benda fingri á hvað það er sem er að en staðan er svona. Nú erum við komnir með í þetta og ætlum að gera allt sem við getum, allir saman, til að snúa þessu við. Ég hef fulla trú á því.“

Frá leik Keflavíkur fyrr á tímabilinuVísir/Jón Gautur

Það er vanda­samt verk­efni. Fimm leikir eftir, fimm erfiðir leikir því þú virðist ekki geta gengið að neinu vísu í þessari deild. Hvernig meturðu stöðu liðsins þegar að stutt er eftir af deildar­keppninni?

„Það er rétt sem þú segir. Við erum í 10. sæti og það eru fimm mjög erfiðir leikir eftir. Þar af eru fjórir á úti­velli. Þetta getur eigin­lega ekki verið flóknara. Hjá okkur er það þannig að við tökum einn leik í einu. Næsti leikur er gegn Haukum og hann er mjög mikilvægur. Við ætlum að byrja á að spila hann. Eftir þann leik metum við þetta aftur.“

Hverju vill Sigurður Ingi­mundar ná fram í þessum liðum að loknu tíma­bili? Hvað viltu vera búinn að sjá?

„Ég veit hvað ég vil sjá í kvenna­liðinu. Þær eru að spila skemmti­legan bolta, við viljum bæta hann og gera enn betri. Ég er nú bara búinn að mæta á tvær æfingar hjá karla­liðinu og flesta hef ég nú bara ekki talað við áður. Það tekur smá tíma. En klár­lega viljum við sjá al­vöru körfu­bolta lið sem spilar saman og gerir sitt besta fyrir bæði félagana og félagið sitt.

Bjartsýnn á að karla­liðið nái inn í úr­slita­keppni?

„Ég er alltaf bjartsýnn á Kefla­vík.“

Leikur Hauka og Keflavíkur í Bónus deild karla verður sýndur á Stöð 2 Bónus deildin 1 rásinni og hefst klukkan korter yfir sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×