Fótbolti

Greindi frá vá­legum tíðindum

Aron Guðmundsson skrifar
Kirian á blaðamannafundi í morgun.
Kirian á blaðamannafundi í morgun. Mynd: Las Palmas

Kirian Rodríguez, fyrirliði spænska úrvalsdeildarfélagsins Las Palmas, hefur greinst með krabbamein á nýjan leik. Hann þarf því að láta af knattspyrnuiðkun um óákveðinn tíma og gangast undir lyfjameðferð.

Frá þessu greindi Kirian á blaðamannafundi á morgun en fyrirliðinn missti af meirihluta tímabilsins 2022-23 sökum baráttu sinnar við eitilfrumukrabbamein sem hefur nú tekið sig upp að nýju.

„Það var í gær sem mér var tjáð að krabbameinið hefði tekið sig upp að nýju,“ sagði hinn 28 ára gamli Kirian á blaðamannafundinum í morgun. „Ég mun þurfa að hætta spila og gangast undir lyfjameðferð að nýju til þess að berjast við þennan sjúkdóm.“

Kirian hefur varið öllum sínum atvinnumannaferli hjá Las Palmas sem er sem stendur í 15.sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti.

„Ég vonast til þess að koma aftur til móts við liðið á næsta tímabili og er fullviss um að félagið, leikmennirnir og þjálfarateymið sjái til þess að það verði í spænsku úrvalsdeildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×