Sum félög eru það ósátt með ákvörðun stjórnar knattspyrnusambandsins að þau íhuga að fara lengra með málið.
„Þrátt fyrir sannfærandi rök fyrir því að hætta með VAR, ekki síst með framlagi frá félögum sjálfum í umræðuna, þá hefur stjórnin tekið þá einróma ákvörðun að það besta fyrir norska fótboltann sé að halda áfram með VAR en þróa það enn frekar,“ sagði Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, á blaðamannafundi í gær. NRK fjallar um málið.
„Við getum ekki hætt með þetta verkefni núna eftir að svo margir hafa fjárfest í því. Við höfum bara tveggja ára reynslu á myndbandsdómgæslu og þetta er orðinn mikilvægur hluti af alþjóðlegum leikjum bæði félagsliða og landsliða,“ sagði Klaveness.

Félögin kusu með nítján atkvæðum gegn þrettán að hætta með myndbandsdómgæslu en stuðningsmenn margra félaga mótmæltu VAR á mörgum leikjum síðasta sumar. Það þurfti að aflýsa einum eftir að ógrynni af fiskibollum var hent inn á völlinn.
„Toppliðin 32 hafa með lýðræðislegum hætti komist að þeirri niðurstöðu að þau vilji ekki hafa VAR. Til hvers að vera með lýðræðislega kosningu ef að það er síðan horft fram hjá niðurstöðunum,“ sagði Ole Kristian Sandvik, talsmaður samtaka stuðningsmannafélaga í norskum fótbolta, í viðtali við norska ríkisútvarpið.
„Norska knattspyrnusambandið hefur haft stuðningsmennina að fíflum. Þau báðu stuðningsmennina um að nota sínar lýðræðislegu leiðir. Það var mikill meirihluti á móti VAR. Klaveness sagði það í sumar að framlag félaganna myndi hafa mikil áhrif. Það er augljóslega ekki raunin,“ sagði Sandvik.
„Ég er mjög hissa á þessu. Ég bjóst við að norska sambandið myndi standa við sín orð síðan í sumar. Það var kannski barnalegt af mér. Mér finnst eins og við séum ekki tekin alvarlega,“ sagði Sandvik.