Á fundi stjórnar KSÍ 15. janúar síðastliðinn tók stjórn KSÍ ákvörðun um annað fyrirkomulag á hluta framlags UEFA til KSÍ vegna þróunar- og fjárfestingaverkefna fyrir árin 2024-2028. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sambandsins.
Heildarfjárframlag UEFA til KSÍ í þessum málaflokki er alls fimm milljónir evra, 732 milljónir króna, og dreifist yfir tímabilið 1. júlí 2024 til 30. júní 2028.
Á undanförnum árum hefur um það bil fimmtungshlutur af umræddu fjárframlagi verið veitt í mannvirkjasjóð KSÍ og úthlutað til styrkhæfra verkefna aðildarfélaga í samræmi við reglugerð sjóðsins.
Mannvirkjasjóður KSÍ hefur verið starfræktur frá því í janúar 2008. Í júní sl. var auglýst sérstaklega eftir umsóknum frá aðildarfélögum um styrki úr mannvirkjasjóði og var vakin sérstök athygli á að um væri að ræða umsóknir og úthlutanir fyrir árið 2024 eingöngu.
Í Hattrick reglugerð UEFA er það gert að skilyrði að KSÍ nýti framangreint fjárframlag til verkefna sem þjóna sameiginlegum hagsmunum fyrir knattspyrnuhreyfinguna í heild og hafi m.a. skýran þróunar- og knattspyrnulegan tilgang.
Meðal verkefna sem geti fallið þar undir í flokki knattspyrnumannvirkja (Football infrastructure) er vegna leikvangs á yfirráðasvæði aðildarsambands UEFA og er ætlað að uppfylla lágmarkskröfur reglugerða UEFA til að halda leiki í öllum UEFA keppnum (landslið og félagslið).
Hefur stjórn KSÍ ákveðið að hluti framlags UEFA, sem áður hefur verið tileinkað mannvirkjasjóði KSÍ, sem nú kemur til vegna áranna 2024-2028, verði nýtt í uppbyggingu á núverandi þjóðarleikvangi á Laugardalsvelli.
Ákvörðun stjórnar KSÍ er tekin m.a. með eftirfarandi atriði í huga:
Svo tryggt verði að á Íslandi sé knattspyrnuleikvangur sem uppfylli a.m.k. lágmarkskröfur í reglugerðum UEFA til halda leiki í Evrópukeppnum félagsliða.
Svo tryggt verði að á Íslandi sé knattspyrnuleikvangur sem uppfylli a.m.k. lágmarkskröfur í reglugerðum UEFA og FIFA til að leika landsleiki í alþjóðlegum keppnum.