Þessi orð koma fram í nýjasta Útkallsþætti Óttars Sveinssonar sem fjallar um flugslysið í Ljósufjöllum í apríl 1986. Sjö manns, þar af ellefu mánaða barn, voru í vélinni. Þau sem lifðu slysið af biðu í tíu og hálfa klukkustund eftir hjálp. Á meðan geysaði glórulaust fárviðri, snjókoma og skafrenningur í fjöllunum. Þáttinn í heild má finna hér fyrir neðan.

„Það fyrsta sem hvarflaði að manni var að það kæmi enginn að ná í okkur þarna.“ hugsaði Kristján Jón Guðmundsson þegar hann sá vélina vera að skella utan í fjallið, en hann var einn þeirra sem lifði af.
Gríma Huld Blængsdóttir, var 25 ára læknanemi og unnusta flugmannsins. Þegar slysið varð var hún stödd í Kópavogi: „Allt í einu var eins og einhver kallaði á mig með nafni. Klukkutíma seinna var hringt í mig og sagt að vélin sé týnd og Smára sé saknað. Ég fór í einhvern trans og öskraði ... ég vissi það bara að hann var farinn.“
Guðlaugur Þórðarson flugbjörgunarsveitarmaður fór fyrstur inn í flakið þar sem hann sá látið fólk en svo kom hann auga á Kristján sem var með takmarkaðri meðvitund: „Hann var mjög illa slasaður, bara á skyrtu hnepptri langt niður á bringu og mjög illa farinn í andliti.“

Slóst við björgunarmennina hálf meðvitundarlaus
Kristján var lagður til á teppi fyrir utan snjóbíl. Guðlaugur sá að hinn slasaði var heljarmenni en illa áttaður: „Hann barðist mjög við okkur. Þegar ég legg hann niður þá rífur hann í mig og dregur mig af öllu afli niður að andlitinu.“ Guðmundur Oddgeirsson tók svo við: ,,Hann greinilega fann mjög mikið til og ofboðslega sterkur. Hann náði taki á mér og henti mér eins og tusku fram og aftur.“
Kristján hittir bjargvætti sína í þættinum: „Aumingja mennirnir. Þetta eru ekki sérlega góðar þakkir að vera að leggja á sig allar þessar svakalegu vinnu til að ná í einhvern og svo hagar hann sér eins og vitleysingur,“ segir Kristján brosandi. „En sem betur fer gerði ég mér ekki grein fyrir neinu.“
