Venezia komst yfir með hálfgerðu skrípamarki strax á fimmtu mínútu, í fyrsta leik sínum á nýju ári. Devis Vasquez, markvörður Empoli, tók allt of langan tíma með boltann áður en hann spyrnti knettinum beint í Finnann Joel Pohjanpalo og af honum fór boltinn í netið.
Empoli tókst hins vegar að jafna með marki Sebastiano Esposito á 32. mínútu og þar við sat.
Mikael lék allan leikinn en Bjarki Steinn Bjarkason var á bekknum hjá Venezia sem er áfram í fallsæti, nú í 18. sæti af 20 liðum með 14 stig, tveimur stigum frá næsta örugga sæti. Empoli er í 11. sæti.
Guðlaugur Victor á bekknum
Á Englandi voru nokkur Íslendingalið á ferðinni en Guðlaugur Victor Pálsson sat áfram á varamannabekk Plymouth, í 0-0 jafntefli við Stoke í öðrum leiknum eftir brottrekstur Wayne Rooney. Arnór Sigurðsson er enn frá keppni með Blackburn sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Burnley.
Í ensku C-deildinni lék Jason Daði Svanþórsson hins vegar með Grimsby í 3-1 tapi gegn Bradford City, en Benóný Breki Andrésson er ekki kominn inn í leikmannahóp Stockport County sem mætir Mansfield Town.