Upp­gjörið: Höttur - Haukar 86-89 | Gestirnir unnu botnslaginn á Egils­stöðum

Gunnar Gunnarsson skrifar
Everage Lee Richardson var stigahæstur í liði Hauka.
Everage Lee Richardson var stigahæstur í liði Hauka. vísir/Anton

Haukar unnu mikilvægan sigur í fallbaráttu Bónus deildar karla í körfuknattleik þegar liðið lagði Hött 86-89 á Egilsstöðum í kvöld. Leikurinn var sá fyrsti undir stjórn nýs þjálfara.

Tilkynnt var í gær að Friðrik Ingi Rúnarsson væri tekinn við Haukum. Nokkrar breytingar urðu á liðinu í jólafríinu, Steeve Ho You Fat og Tyson Jolly yfirgáfu það en De‘sean Parsons, sem spilaði með því í vor kom í staðinn.

Það var góður kafli lok fyrsta leikhluta sem fyrst bjó til forskot Hauka. Þeir skoruðu níu stig gegn tveimur síðustu 3,5 mínúturnar og voru 12-22 yfir eftir hann. Hattarmenn áttu hins vegar áhlaup í öðrum leikhluta, fóru úr 16-30 í 33-33 og voru yfir 39-38 í hálfleik.

Hattarmenn virtust ætla að halda áfram á svipaðri braut en um miðjan þriðja leikhluta snéru Haukar leiknum aftur sér í vil, skoruðu þá ellefu stig í röð. Höttur svaraði með áhlaupi undir lokin og náði muninum niður í tvö stig, 62-64.

Þrátt fyrir allt meiri breidd hjá Haukum

Framan af leik hafði verið meira um skiptingar hjá Hetti og því kannski væntingar um að liðið ætti meira inni fyrir lokasprettinn. Svo var alls ekki, heldur komu inn ferskir fætur hjá Haukum, til dæmis frá Huga Hallgrímssyni sem skilaði mikilvægu framlagi inn í lokasprettinn, þrátt fyrir að hafa verið aðeins mislagðir fætur fyrst.

Það skipti heldur ekki máli þótt Everage Richardson, stigahæsti maður Hauka, lenti í villuvandræðum eftir þrjár mínútur í leikhlutanum og væri út af nokkurn vegin það sem eftir er. Aðrir eins og Steven Verplancken, sem hafði verið rólegur í sókninni til þessa, svaraði kallinu og skoraði átta stig í leikhlutanum.

Haukar gáfu á sér færi

Hattarmenn náðu þó að búa sér til tækifæri. Obie Trotter skoraði tvær þriggja stiga körfur í röð sem breyttu stöðunni úr 74-85 í 80-85 þegar um mínúta var eftir. Höttur setti pressu á Hauka sem virtust óstyrkir. Tvær sóknir með þremur stigum hvor fylgdu í kjölfarið hjá heimaliðinu og þegar 16,5 sekúndur voru eftir fengu þeir tækifæri þegar Haukar misstu boltann út af eftir innkast.

Höttur tók leikhlé og leitaði að þriggja stiga skoti í von um að vinna leikinn. Gott skot var ekki auðfundið og endaði með að Gustav Suhr-Jessen skaut úr vinstra horninu en hitti ekki körfuna. Haukar náðu í víti, skoruðu úr því seinna. Þar með voru tvær sekúndur eftir. Justin Roberts skaut frá miðju en var fjarri körfunni.

Hverjir skoruðu mest?

Roberts var stigahæstur á vellinum með 26 stig. Hann spilaði virkilega vel í öðrum leikhluta þegar hann keyrði ákaft á körfuna. Obie skoraði 17 stig og Nemanja Knezevic 17, auk þess að taka 12 fráköst.

Hjá Haukum varð Everage stigahæstur með 23, hafði skorað 22 þegar hann fór út af með fjórðu villuna. En síðan dreifðist stigskorið vel, Steven Verplancken skoraði 15, Hilmir Arnarson 14 og þeir Seppe D‘Esplallier og De‘seaon Parsons 13 hvor. Seppe tók 13 fráköst.

Hvað réði úrslitum?

Liðsframlagið var meira hjá Haukum, þar eru allir byrjunarliðsmennirnir með 10 stig eða fleiri og allir þeirra átta leikmanna sem tóku þátt í leiknum skoruðu. Hjá Hetti voru þrír leikmenn yfir 10 stigum og sjö af níu leikmönnum skoruðu körfur.

Hvað gekk illa?

Leikur Hattar var heilt yfir flatur, það var helst í öðrum leikhluta sem það var ákefð. Í liðinu eru góðar þriggja stiga skyttur en þær hafa ekki náð sér á strik síðustu leiki, utan seinni hálfleiksins gegn Álftanesi fyrir jól enda vannst sá leikur. Varnarleikur liðsins í kvöld var ekki góður, of oft voru Hattarmenn að horfa á boltann og steingleymdu manninum sem þeir áttu að dekka.

Þrátt fyrir úrslitin var frammistaða Hauka ekki framúrskarandi og óvíst að liðið hefði unnið annan andstæðing. Mistökin voru of mörg eins og 22 tapaðir boltar eru til marks um.

Hvað gekk vel?

Haukar eru með 70,5% hittni, 31/44 úr teignum. Það gefur til kynna að liðið hafi skapað sér opin færi nálægt körfunni og nýtt þau. Þrír leikmenn eru með 100% nýtingu af því færi, Everage með 80% og Parsons með 75%. Að sama skapi ber það varnarleik Hattar ekki fagurt vitni.

Hvað þýða úrslitin?

Með þremur sigrum í fjórum leikjum hefur staða Hauka breyst úr því að vera vonlaus í að vera möguleg. Höttur hefur dregist niður í fallbaráttuna og fjarlægist úrslitakeppnina.

Viðar Örn: Við erum komnir í duglega fallbaráttu

Viðar Örn Hafsteinsson.vísir/Anton brink

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var vonsvikinn eftir 86-89 tap fyrir Haukum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Haukar eru áfram á botninum með sex stig en eru nú bara tveimur stigum á eftir Hetti og Val sem á leik til góða. Önnur lið í baráttunni á sama svæði unnu í gær.

„Þetta eru dýrkeypt úrslit fyrir okkur upp á framhaldið. Í staðinn fyrir að hanga í pakkanum þá erum við komnir í duglega fallbaráttu. Við þurfum virkilega að rífa okkur í gang ef ekki á illa að fara,“ sagði hann um þýðingu úrslitanna í kvöld.

„Við þurfum fyrst að sýna smá vilja og baráttu. Það sem við erum að gera er alltof flatt og kraftlaust. Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá svona frammistöðu á heimavelli, skítlegt af okkur að spila svona fyrir framan okkar fólk,“ sagði Viðar og lýsti frammistöðu Hattarliðsins sem „hræðilegri“ og „vonbrigum.“

„Við gefum of mikið af auðveldum körfum og erum einhvern vegin ekki í takti. Við skorum nóg, þótt við getum gert betur. Vandamálið í kvöld er vörnin, þeir skora alltof auðveldlega á okkur með að fá lay-up þar sem við gerum mistök og höldum ekki einbeitingu. Það er vandamálið.“

Hann neitaði því afdráttarlaust að Höttur hygðist gera breytingar á leikmannahóp sínum til að komast úr ógöngunum.

Friðrik Ingi: Mikil gleði og samstaða í Haukaliðinu

Friðrik Ingi hóf tímabilið með kvennalið Keflavíkur en er nú mættur í Haukana.Vísir/Diego

Friðrik Ingi Rúnarsson stýrði liði Hauka í úrvalsdeild karla í fyrsta sinn í kvöld og hefði vart getað beðið um betri byrjun, en liðið vann Hött 86-89 á Egilsstöðum. Haukar eru enn neðstir en þokast nær öðrum liðum. Friðrik Ingi var því ánægður með leikinn þótt margt megi enn bæta.

„Ég var virkilega ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn. Við áttum von á að Höttur kæmi til baka, sem og gerðist, en við sýndum styrk með hvernig við komum aftur inn í þriðja leikhlutann og ég er ánægður hvernig við náðum stjórninni. Mér fannst innkomu Huga (Hallgrímssonar) og Birkis (Eyþórssonar) gefa tóninn, þeir komu með hæð og þeim fylgdi mikil orka og elja.“

Í fjórða leikhluta var Everage Richardson, sem hafði þá skorað 22 stig og var atkvæðamesti sóknarmaður Hauka, tekinn út af eftir að hafa fengið fjórar villur. Aðrir stigu upp, Steven Verplancken skoraði til dæmis átta stig í leikhlutanum.

„Steven var rólegur í sókninni í fyrri hálfleik. Hann er yfirmaður og er ekki að skora fyrir sjálfan sig. Við ræddum í hálfleik um að hann myndi nýta þau færi sem gæfust þegar vörnin hertist á aðra leikmenn og hann gerði það vel á köflum. En þetta var heildarframmistaða með mikilli gleði og samstöðu þar sem margir lögðu í púkkið.“

Tækifæri til að verða betri

Friðrik Ingi var formlega kynntur sem þjálfari liðsins í gær sem þýðir að hann hafði ekki langan tíma með liðinu. Margt má bæta, til dæmis töpuðu Haukar 22 boltum í leiknum. „Við töluðum eftir leikinn um að það væri margt jákvætt í leiknu og eitt af því væri að við gætum orðið betri. Við þurfum að taka þetta stig af stigi og verða hægt og rólega betri. Þetta er hörkudeild þar sem erfitt er að ná í sigra, við vitum að það er ekki auðvelt að koma hingað og vinna þannig ég er mjög ánægður.“

Með sigrinum fara Haukar í sex stig, eru tveimur stigum frá Hetti og Val en síðarnefnda liðið á leik til góða. Haukar hafa hins vegar unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum þannig staða þeirra er ekki jafn svört og áður.

„Við viljum að Haukar verði stöðugra félag og betra lið. Það leggjast allir á eitt um það. Þetta er eitt skref í þá átt. Í nágrenni við okkur eru ákveðin lið sem unnu í gær og það sýnir okkur að það eru alls konar hlutir að gerast í deildinni þannig við þurfum að halda áfram.“

Rólegur yfir leikmannahópnum

Haukar stokkuðu aðeins upp í leikmannahópnum í jólafríinu og De‘sean Parsons, sem spilaði með liðinu síðasta vor, kom aftur til þess. Hann spilaði sinn fyrsta leik í kvöld. Friðrik segist ekki gera neinar kröfur um breytingar á leikmannahópnum samhliða því sem hann tekur við.

„Þegar við settumst niður til að fara yfir málin voru ýmis sjónarmið uppi. Að ég best veit þá verða ekki miklar breytingar á hópnum. Ég er óskaplega rólegur yfir stöðunni. Við erum með marga efnilega leikmenn sem áttu góða innkomu hér í kvöld og fá tækifæri til að bæta sig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira