Fótbolti

Zlatan biðst af­sökunar eftir brott­rekstur Fon­se­ca

Smári Jökull Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er einn af hæstráðendum hjá AC Milan.
Zlatan Ibrahimovic er einn af hæstráðendum hjá AC Milan. Vísir/Getty

Paulo Fonseca var rekinn sem knattspyrnustjóri AC Milan á sunnudagskvöldið eftir dapurt gengi á tímabilinu. Félagið hefur nú beðist afsökunar á hvernig brottreksturinn var framkvæmdur.

AC Milan hefur ekki gengið vel á tímabilinu til þessa og situr í áttunda sæti Serie A eftir 1-1 jafntefli gegn Roma á sunnudag. Knattspyrnustjóranum Paolo Fonseca var sagt upp eftir leikinn en ítalskir fjölimiðlar voru búnir að tilkynna um eftirmann Fonseca áður en Milan hafði formlega tilkynnt um brottrekstur hans.

Það virðist vera ýmislegt sem forráðamenn Milan gátu gert betur í samskiptum við Fonseca. Zlatan Ibrahimovic, sem starfar sem sérstakur ráðgjafi í knattspyrnumálum Milan, hefur nú beðist afsökunar á því hvernig félagið kom fram eftir leikinn gegn Roma en Fonseca hefur greint frá því að hann hafi verið rekinn um leið og leikurinn var flautaður af á sunnudag.

Þrátt fyrir það var Fonseca skikkaður á blaðamannfundinn eftir leik þar sem hann þurfti að svara spurningum blaðamanna án þess að greina frá brottrekstrinum, ákvörðun sem Milan hefur fengið mikla gagnrýni fyrir.

„Ákvörðunin um að reka hann var tekinn eftir leik. Það voru mistök hjá okkur að láta hann tala og við biðjumst afsökunar á því,“ sagði Ibrahimovic á blaðamannafundi í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×