Eftir hörmulegt gengi undanfarnar vikur vann Manchester City kærkominn sigur á Leicester City, 0-2, í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Með sigrinum komst City upp í 5. sæti deildarinnar. Leicester er aftur á móti í átjánda og þriðja neðsta sætinu með fjórtán stig, einu stigi frá öruggu sæti. Refirnir hafa tapað fjórum leikjum í röð.
Brasilíumaðurinn Savinho hafði ekki skorað mark í ensku úrvalsdeildinni í vetur en það breyttist í dag. Á 21. mínútu kom hann City yfir þegar hann fylgdi eftir skoti Phils Foden sem Jakub Stolarczyk, markvörður Leicester, varði.
Leicester fékk sín tækifæri í leiknum. Facundo Buonanotte skallaði meðal annars í stöng og Manuel Akanji bjargaði á línu.
Heimamönnum hefndist hins vegar fyrir að nýta ekki færin sín því á 72. mínútu sendi Savinho boltann fyrir á Erling Haaland sem skallaði boltann í netið og kom City í 0-2.
Jamie Vardy skallaði í slá skömmu fyrir leikslok en fleiri urðu mörkin ekki og meistararnir fögnuðu langþráðum sigri.