Ruben Baraja var rekinn úr þjálfarastarfi Valencia á mánudag. Valencia vildi fá Carlos Corberan í staðinn og greiddi WBA þrjár til fjórar milljónir punda fyrir hans krafta. Hann samþykkti svo persónuleg kjör í gær.
„Ég get ekki byrjað að lýsa því hvað mér þykir vænt um WBA, stuðningsmenn félagsins og alla sem tengjast því. Ég hef aðeins fundið fyrir ást á mínum tveimur árum hér og að yfirgefa félagið hefur verið erfiðasta ákvörðun ævi minnar“ sagði Corberan í opnu bréfi til stuðningsmanna.
Corberan hefur endað með WBA í níunda og fimmta sæti ensku B-deildarinnar síðustu tvö tímabil. Þar áður hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari Marcelo Bielsa hjá Leeds, þjálfari Huddersfield Town og síðast Olympiacos í Grikklandi, en þaðan var hann rekinn eftir aðeins tvo sigra í fyrstu ellefu leikjunum.

Corberan á ærið verkefni fyrir höndum hjá Valencia. Liðið er í fallsæti í spænsku úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sautján deildarleikjunum. Síðustu fimm tímabil hefur Valencia ekki endað ofar en í níunda sæti.
Fyrsti leikurinn verður gegn Real Madrid þann þriðja janúar.