Rashford sagði frá því í viðtali fyrr í þessum mánuði að hann væri „tilbúinn í nýja áskorun“ og gaf þannig í skyn að hann væri til í að yfirgefa United, þar sem hann hefur spilað allan sinn feril.
Umrætt viðtal birtist skömmu eftir að Rashford var ekki valinn í leikmannahóp United er liðið vann 2-1 sigur gegn Englandsmeisturum Manchester City. Í kjölfarið hefur hann svo ekki tekið þátt í leikjum liðsins gegn Tottenham í enska deildarbikarnum og Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni.
Amorim hefur sagt frá því að hann hefði viljað að Rashford hefði talað við sig áður en hann lét ummæli sem þessi falla í viðtali. Portúgalski þjálfarinn hefur nú einnig komið Rashford að einhverju leyti til varnar og segist vera hissa á fólkinu í kringum hann.
„Þetta er erfið staða,“ sagði Amorim. „Ég geri mér grein fyrir því að þessir leikmenn eru með fullt af fólki í kringum sig. Fólk sem tekur ákvarðanir sem eru ekki endilega sprottnar upp frá fyrstu hugmynd leikmannsins.“
„Þau taka ákvörðun um að fara í þetta viðtal, ekki bara Marcus.“