Fótbolti

Klósett­pappír og blys trufla leiki í Sambandsdeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tveir leikir hafa orðið fyrir truflunum af völdum áhorfenda.
Tveir leikir hafa orðið fyrir truflunum af völdum áhorfenda.

Tveir leikir í Sambandsdeildinni hafa orðið fyrir töluverðum truflunum af völdum áhorfenda. Hlé var gert á leik Djurgården og Legia vegna blysa sem kastað var inn á völlinn og Christopher Nkunku, leikmaður Chelsea, átti erfitt með að taka hornspyrnu vegna klósettpappírskasts.

Leikur Djurgården og Legia var nýhafinn þegar blysin voru sett í gang. Leikvangur Djurgården er yfirbyggður og reykurinn var því heillengi að hverfa, enn lengur sökum þess að nokkrum blysum var kastað beint inn á völlinn.

Í leik Chelsea og Shamrock Rovers var Christopher Nkunku að stilla upp í hornspyrnu. Stuðningsmenn Shamrock Rovers eru greinilega í stuði og tóku skeinipappír með sér, sem þeir köstuðu inn á völl.

Þrátt fyrir þessa hrekki áhorfenda hafa nú báðir leikir haldið áfram, en gera má ráð fyrir töluverðum uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×