Fótbolti

Glódís Perla með sjálfs­mark í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir horfir á eftir boltanum í eigið mark en leikmenn Arsenal fagna.
Glódís Perla Viggósdóttir horfir á eftir boltanum í eigið mark en leikmenn Arsenal fagna. Getty/Julian Finney

Glódís Perla Viggósdóttir var fyrir því óláni í kvöld að skora sjálfsmark í síðasta leik Bayern München í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Bayern tapaði þá 3-2 á útivelli á móti Arsenal. Jafntefli dugði þýska liðinu til að tryggja sér sigur í riðlinum en bæði liðin voru búin að tryggja sig áfram í átta liða úrslitin.

Arsenal skoraði sigurmarkið úr víti fimm mínútum fyrir lok leiksins og vann því riðilinn.

Þetta byrjaði ekki vel fyrir íslenska landsliðsfyrirliðann því Glódís Perla setti boltann í eigið mark strax á sjöundu mínútu leiksins.

Magdalena Eriksson, félagi Glódísar í miðvarðarstöðunum, jafnaði metin á 39. mínútu og kom síðan Bayern yfir í 2-1 með sínu öðrum marki sem kom á 58. mínútu.

Alessia Russo jafnaði metin fyrir Arsemal á 59. mínútu.

Bæjarinn Tuva Hansen fékk síðan dæmda á sig hendi á 85. mínútu og úr vítinu skoraði Mariona Caldentey sigurmark Arsenal.

Juventus vann 3-0 sigur á Sædísi Rún Heiðarsdóttur og félögum í Vålerenga í hinum leiknum í riðlinum. Valentina Bergamaschi, Sofia Cantore og Emma Kullberg skoruðu mörkin.

Sædís Rún var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×