Fótbolti

156 prósent hærra verð­launa­fé í boði fyrir stelpurnar okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Telma Ívarsdóttir fagna sigri íslensku stelpnanna í leik á móti Serbíu í ár.
Íslensku landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Telma Ívarsdóttir fagna sigri íslensku stelpnanna í leik á móti Serbíu í ár. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er á leiðinni á sitt fimmta Evrópumót í röð næsta sumar en það verður mikill munur á einu frá Evrópumótinu fyrir fjórum árum síðan.

Íslensku stelpurnar hefðu getað lent í mun erfiðari riðli en það verður samt krefjandi fyrir okkar konur að mæta Sviss, Noregi og Finnlandi á EM í Sviss í júlí 2025.

Komist íslenska landsliðið áfram í útsláttarkeppnina þá eru miklu meiri peningar í boði en á síðasta Evrópumóti.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti að sambandið hafi hækkað verðlaunaféð á mótinu um 156 prósent.

41 milljón evra deilist nú út sem verðlaunafé á mótinu næsta sumar en sú upphæð var aðeins sextán milljónir evra á EM 2021. Fer úr 2,3 milljörðum íslenskra króna í næstum því sex milljarða króna.

Verðlaunaféð var síðan aðeins átta milljónir evra á EM 2017 og hefur því næstum því fimmfaldast á aðeins átta árum.

Þetta er vissulega jákvæð þróun en þessi upphæð er þó enn bara smámunir í samanburði við karlana sem skipta á milli sín þrjú hundruð milljónum evra.

Meiri áhugi og frekari vinsældir kvennafótboltans þýða bara eitt og verðlaunaféð mun með sama áframhaldi halda áfram að taka stökk í næstu keppnum.

Þetta boðar einnig gott fyrir reksturinn hér heima.

Það er þegar ljóst að Knattspyrnusamband Íslands fær að minnsta kosti 1,8 milljónir evra, 262 milljónir króna fyrir að komast inn á Evrópumótið í Sviss. Stelpurnar geta síðan hækkað þá upphæð með góðum árangri og með því að komast í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×