Fótbolti

Freyr rekinn frá Kortrijk í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson á hliðarlínunni sem þjálfari Kortrijk.
Freyr Alexandersson á hliðarlínunni sem þjálfari Kortrijk. Getty/Nico Vereecken

Kortrijk tilkynnti í kvöld að Freyr Alexandersson og félagið hafi komið sér saman um að hann hætti strax sem þjálfari belgíska félagsins.

Aðstoðarþjálfarinn Jonathan Hartmann hættir einnig.

Freyr kom til Kortrijk frá danska félaginu Lyngby í janúar á þessu ári. Liðið sat á botni deildarinnar þegar hann tók við en hélt sæti sínu í deildinni.

„Þetta er erfið ákvörðun fyrir félagið. Við viljum þakka Frey og Jonathan fyrir fagmennsku, dugnað og drífandi persónuleika þeirra,“ sagði íþróttastjórinn Pieter Eecloo í frétt á heimasíðu félagsins. Á þessum orðum má sjá að Freyr var rekinn frá félaginu.

Kortrijk þakkar Freyr fyrir síðasta ár og hina ótrúlegu björgum þegar honum tókst að halda liðinu áfram í efstu deild þrátt fyrir að hafa tekið við liðinu í mjög slæmri stöðu.

Kortrijk segist muni finna eftirmann Freys fljótlega.

Kortrijk er nú í 14. sæti deildarinnar sem er fallsæti. Liðið hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum og alls ellefu af átján leikjum á tímabilinu.

Síðasti sigur liðsins var 3-1 sigur á Mechelen í lok nóvember.

Freyr hefur verið sterklega orðaður við starf landsliðsþjálfara karla en Knattspyrnusamband Íslands er í þjálfaraleit eftir að Age Hareide hætti með liðið á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×