Erlent

Netanja­hú ber vitni í spillingar­máli sínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Benjamín Netanjahú í dómsal í Tel Aviv 10. desember 2024. Hann er ákærður fyrir mútuþægni, fjársvik og umboðssvik.
Benjamín Netanjahú í dómsal í Tel Aviv 10. desember 2024. Hann er ákærður fyrir mútuþægni, fjársvik og umboðssvik. Vísir/EPA

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, settist í vitnastúku í fyrsta skipti í réttarhöldum í spillingarmáli á hendur honum í morgun. Vitnisburði forsætisráðherrans hafði verið frestað vegna stríðsins gegn Hamas-samtökunum.

Nokkrir tugir mótmælenda tóku á móti Netanjahú fyrir utan dómshúsið í Tel Aviv í morgun, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Einhverjir þeirra voru stuðningsmenn hans en aðrir kröfðust þess að hann gerði meira til þess að frelsa um hundrað gísla sem eru enn í haldi Hamas eftir hryðjuverkaárás samtakanna í október í fyrra.

Netanjahú var ákærður fyrir mútuþægni, fjársvik og umboðssvik árið 2019 en brotin tengdust gjöfum sem hann þáði frá auðugum vinum sínum. Þá var hann sakaður um að kaupa sér jákvæða fjölmiðlaumfjöllun með því að gera eigendum fjölmiðlanna greiða.

Forsætisráðherrann neitar sök og hefur sakað saksóknara um pólitískar ofsóknir og nornaveiðar. Hann er fyrsti forsætisráðherra Ísraels sem er ákærður fyrir glæp.

Málið hefur dregist á langinn, nú síðast vegna stríðsins á Gasa. Dómari ákvað hins vegar á fimmtudag að Netanjahú þyrfti að byrja að bera vitni. Það þarf hann að gera þrisvar í viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×