Fótbolti

Messi ekki í liði ársins í fyrsta sinn í sau­tján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hafði verið í úrvalsliðinu frá árinu 2006.
Lionel Messi hafði verið í úrvalsliðinu frá árinu 2006. Getty/Maddie Meyer

Lionel Messi komst ekki í úrvalslið FIFPro, alþjóðlegu leikmannasamtakanna, og það er mjög sögulegt. Messi hafði komist í lið ársins undanfarin sautján ár.

Það eru leikmennirnir sjálfir sem kjósa um hvaða ellefu eiga mest skilið að vera í úrvalsliði ársins.

21 þúsund leikmenn frá sjötíu þjóðum tóku þátt í kosningunni.

Messi var reyndar valinn besti leikmaður MLS deildarinnar á dögunum og varð Suðurameríkumeistari með argentínska landsliðinu síðasta sumar. Það dugði þó ekki til en Messi missti af stórum hluta ársins vegna meiðsla.

Messi skoraði samt tuttugu mörk og gaf tíu stoðsendingar í MLS-deildinni og var með sex mörk með argentínska landsliðinu.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2006 þar sem Messi er ekki i þessu úrvalsliði FIFPro sem hefur verið valið frá árinu 2005.

Cristiano Ronaldo og Mohamed Salah komust heldur ekki í liðið í ár. Þar er aftur á móti Kylian Mbappé.

Meirihluti leikmanna, sex af ellefu, hafa spilað fyrir Real Madrid á árinu en aðrir en Mbappé eru það Vinícius Júnior, Dani Carvajal, Antonio Rudiger, Toni Kroos og Jude Bellingham. Real Madrid vann Meistaradeildina í ár.

Fjórir leikmenn Englandsmeistara Manchester City eru í liðinu en það eru Erling Haaland, Kevin De Bruyne, Éderson og Rodri. Rodri fékk einmitt gullknöttinn á dögunum.

Ellefti leikmaður liðsins er síðan Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×