Lífið samstarf

„Hér hvílir sann­leikurinn“

Lestrarklefinn og Rebekka Sif Stefánsdóttir
Myrkir atburðir á Vestfjörðum í upphafi 17. aldar eru efniviður nýjustu skáldsögu Jóns Kalman.
Myrkir atburðir á Vestfjörðum í upphafi 17. aldar eru efniviður nýjustu skáldsögu Jóns Kalman.

Rebekka Sif Stefánsdóttir fjallar um nýjustu bók Jóns Kalman á menningarvefnum Lestrarklefinn. Rebekka hefur þetta að segja um bókina:

Nýjasta verk Jóns Kalmans Stefánssonar er þykk söguleg skáldsaga þar sem ferðinni er heitið aftur til upphafs 17. aldar. Í byrjun aldar áttu sér stað hræðilegir atburðir á Vestfjörðum, Spánverjavígin svokölluðu, sem eru til umfjöllunar hér. Skáldsagan fjallar þó um miklu meira en bara þá atburði. Hún fjallar um mennskuna, ástina, ofbeldi, iðrun og mest af öllu um sannleikann. 

Rebekka Sif Stefánsdóttir skrifar reglulega um bækur á menningarvefinn Lestrarklefinn.is

Í hringiðu þessa alls er presturinn séra Pétur sem ritar feikilangt bréf til viðtakanda sem er hulinn lesandanum í upphafi. Pétur rifjar upp dvöl sína á Meyjarhóli á Brúnasandi þar sem hann tók við prestdæmi og atburðina sem leiddu að vígunum hroðalegu. Hann er nokkuð lengi að koma sér að efninu, enda frá miklu að segja, og hans traustasti trúnaðarvinur, Dóróthea, bendir honum á að hann verði að segja alla sína sögu í bréfinu langa.

Sterkur höfundartónn

Þó að Jón Kalman sé hér á nýjum slóðum hvað varðar tíma þá er hann á kunnuglegum slóðum landfræðilega séð og hans feiknarsterki höfundartónn skín í gegn þó að málsniðið sé meira í takt við tímabil sögunnar. Það er séra Pétur og hans innri mónólógur sem leiðir lesandann í gegnum alla frásögnina. Hans hugleiðingar og siðfræði, hans brestir og mistök, halda lesandanum heilluðum. Þarna eru einnig fjöldinn allur af litlum frásögnum af örlögum fólks sem koma inn og út úr lífi Péturs sem snerta við lesandanum. 

Jón Kalmann er einkar lunkinn við að mála upp mynd af lífi og sálarkvölum persóna sem gegna í raun litlu hlutverki ef á heildina er litið. Ég fann djúpt til með persónum sem ég fékk aðeins að kynnast í einum stuttum kafla og örlög þeirra sitja jafnvel enn í mér.

Pétur er veikur fyrir ástinni, hrífst heldur auðveldlega af konum en tekst ekki að finna konu sem er ógift og gæti orðið hans. Ástin er sterk í hjarta Péturs en það er líka hans nánasta fólk sem skiptir hann mestu máli, þar má nefna heimilisfólkið á Brúnasandi og fósturbörn. Það eru bæði kostir og gallar Péturs sem gera hann svona viðkunnanlegan ásamt réttsýni hans og þörf til að átta sig á heimi sem er að taka miklum breytingum. Hann er frekar mikill heimsmaður, lærði í Kaupmannahöfn og skrifast á við vini sína í Bretlandi og fær fréttir af nýjustu vísindunum í bréfum frá þeim. Hann er fróðleiksfús og forvitinn.

Hér má lesa umfjöllunina í held sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.