Hraðfréttir hófu göngu sína árið 2012 og hafa strákarnir verið reglulegir gestir í sjónvarpi allra landsmanna síðan þá. Nú ætla strákarnir að feta nýja slóð en í kvöld fór fyrsti hlaðvarpsþáttur þeirra í loftið, en hann heitir einfaldlega Hlaðfréttir.
„Við erum búnir að vera hugsa um kýla á þetta í mörg ár en við höfum aldrei látið verða að því, en nú ætlum við að láta á þetta reyna. Þetta er svolítið eins og að fara í tökur fyrir Hraðfréttir nema við ætlum að sleppa því að taka upp Hraðfréttir,“ segir Benedikt í samtali við Vísi.

Þættirnir verða ekki eins og hefðbundnir hlaðvarpsþættir, það er að segja spjall í lokuðu herbergi, heldur ætla þeir að hitta viðmælendur í sínu umhverfi. „Við tökum allt upp í mynd líka og verðum smá eins og fluga á vegg hjá viðmælendum okkar. Við erum rosalega spenntir fyrir þessu,“ segir hann.
Síðustu ár hafa félagarnir starfrækt framleiðslufyrirtækið Pera production og hafa meðal annars komið að gerð Áramótaskaupsins og Æskuslóða á RÚV. Nú í haust fóru þeir út um allan heim og tóku upp Drauminn sem sýndur verður á Stöð 2 í febrúar. Framundan eru mörg spennandi verkefni, ásamt hlaðvarpinu.

„Þetta er búið að vera smá keyrsla síðustu mánuði en ótrúlega gaman og skemmtilegt. Nú í haust ætlum við að einbeita okkur að hlaðvarpinu og stefnum á að gefa út einn þátt í viku. Við erum með langan lista af viðmælendum sem okkur langar að tala við,“ segir Benedikt að lokum.
Fréttin hefur verið uppfærð.