Sveindís Jane Jónsdóttir var hins vegar ekki í leikmannahópi Wolfsburg sem vann 5-0 sigur á Galatasaray á sama tíma.
Amanda var í byrjunarliðinu alveg eins og úti á Spáni þar sem Twente tapaði 7-0 á móti sama liði Real Madrid. Að þessu sinni voru Amanda og stelpurnar á heimavelli og stóðu sig miklu betur.
Real Madrid slapp á endanum heim með 3-2 sigur. Amanda stóð sig vel og spilaði allan leikinn.
Jaimy Ravensbergen kom Twente í 1-0 á 29. mínútu en Linda Caicedo jafnaði metin fyrir Real Madrid í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Danska landsliðskonan Signe Bruun náði að koma Real yfir á 71. mínútu og í blálokin skoraði Alba Redondo þriðja markið. Twente stelpurnar náði að laga stöðuna með marki Sophiu te Brake á sjöttu mínútu í uppbótartíma. Markið skoraði hún eftir stoðsendingu frá Amöndu.
Wolfsburg hafði mikla yfirburði í kvöld og fylgdi eftir 5-0 sigri á sama andstæðingi úti í Tyrklandi í leiknum á undan. Sveindís hefur verið að glíma við meiðsli og sjaldan verið í byrjunarliðinu á síðustu vikum og mánuðum.
Liðið saknaði þó ekki íslenska landsliðsframherjans í leiknum í kvöld sem vannst 5-0.
Alexandra Popp skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu fimmtán mínútum leiksins og Janina Minge bætti við þriðja markinu á 31. mínútu. Popp innsiglaði síðan þrennu sína með fjórða markinu á 88. mínútu. Fimmta markið kom síðan á sjöttu mínútu í uppbótatíma og það skoraði Lena Lattwein.
Wolfsburg hefur nú unnið tvo síðustu leiki sína eftir að hafa farið stigalaust í gegnum tvær fyrstu umferðirnar.