Samkvæmt BBC hafa vitni lýst því að árásarmennirnir hafi verið grímuklæddir og vopnaðir skotvopnum og handsprengjum.
Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), tjáði sig ekki um það í gær hverjir hefðu staðið að verki en sagði algjört hrun lög og reglu á svæðinu hafa gert það ómögulegt að athafna sig þar.
Um það bil tvær milljónir íbúa Gasa reiða sig á neyðaraðstoð og UNRWA segir vondar aðstæður munu versna enn frekar ef meiri aðstoð berst ekki á svæðið á næstu dögum og vikum. Varað hefur við hungursneyð á norðurhluta Gasa.
Lazzarini segir aðstæður núna þannig að bílalestir fái enga fylgd og að gengi og fjölskyldur berjist um að nýta sér öll aðföng á suðurhluta svæðisins. Aðstæður séu orðnar ómögulegar. Þá hafi hundruð manna reynt að ráðast inn í miðstöð UNRWA í Khan Younis til að freista þess að komast yfir matvæli.
Ísraelsher stendur enn í stóraðgerðum á Gasa og tugir hafa verið drepnir á síðustu dögum. UNRWA sakar stjórnvöld í Ísrael um áframhaldandi andvaraleysi gagnvart ástandinu á svæðinu og neyð íbúa.