Körfubolti

Höttur fær Frakka til að fylla skarð Karlovic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er búinn að fá nýjan leikmann.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er búinn að fá nýjan leikmann. vísir/anton

Gedeon Dimoke er genginn í raðir körfuboltaliðs Hattar. Honum er ætlað að fylla skarð Matejs Karlovic sem er meiddur.

Dimoke er annar leikmaðurinn sem Hattarmenn semja við í vikunni. Áður var Bandaríkjamaðurinn Justin Roberts kominn í stað Courvoisiers McCauley sem var látinn taka pokann sinn.

Dimoke er 23 ára tæplega tveggja metra hár franskur framherji sem hefur spilað í heimalandinu og í Litáen. Á síðasta tímabili var hann með 13,9 stig, 5,4 fráköst og 1,4 stoðsendingar að meðaltali í leik með Atletas í litháísku B-deildinni.

Karlovic hefur aðeins komið við sögu í tveimur af sex leikjum Hattar í Bónus deildinni og óvíst er hvenær hann verður leikfær á ný. Hattarmenn sömdu því við Dimoke til að fylla skarð Króatans.

Höttur tapaði fyrir Stjörnunni, 87-80, í Umhyggjuhöllinni í Garðabænum í 6. umferð Bónus deildarinnar í gær.

Hattarmenn eru í 8. sæti Bónus deildarinnar með sex stig. Næsti leikur þeirra er gegn KR-ingum eftir landsleikjahlé, 29. nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×