Schumacher og Hill börðust um heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1 þrjú ár í röð á miðjum 10. áratug síðustu aldar. Schumacher varð heimsmeistari 1994 og 1995 en Hill 1996.
Frægasta rimma þeirra var í lokakeppni tímabilsins 1994. Þeir lentu þá í árekstri og þurftu báðir að hætta keppni. Schumacher gat þó leyft sér að fagna eftir kappaksturinn því hann varð heimsmeistari, einu stigi á undan Hill.
Englendingurinn segist hafa kunnað vel við Þjóðverjann utan brautarinnar en á meðan keppni stóð fauk vinskapurinn út um gluggann.
„Okkur Michael kom vel saman en á brautinni hötuðum við hvorn annan. Það var ekkert annað í boði ef þú ætlaðir að verða heimsmeistari. Það var ekkert pláss fyrir vinahót,“ sagði Hill við BILD.
„Þú verður að nýta þér alla veikleika andstæðingsins og hamra á því. Michael var sérfræðingur í sálfræðistríðinu. Hann lét mér líða eins og ég væri gagnslaus og hæfileikalaus. Hann sagði fjölmiðlum það líka. Og vegna þess að hann vann margar keppnir var engin ástæða til annars en að trúa honum.“
Hill keppti í Formúlu 1 á árunum 1992-99. Hann varð meistari með Williams 1996 og vann alls 22 keppnir á ferli sínum í Formúlu 1.