Fótbolti

Kanté fær fyrirliðabandið hjá Frökkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
N'Golo Kanté hefur borið fyrirliðabandið áður hjá Frökkum en tekur nú við því af Kylian Mbappé.
N'Golo Kanté hefur borið fyrirliðabandið áður hjá Frökkum en tekur nú við því af Kylian Mbappé. Getty/Harry Langer

N’Golo Kanté verður fyrirliði franska fótboltalandsliðsins í þessum landsleikjaglugga en landsliðsþjálfarinn gaf þetta út á blaðamannafundi í dag.

Frakkar mæta Ísraelsmönnum á morgun en leikurinn er hluti af Þjóðadeildinni.

Landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps þurfti að finna nýjan landsliðsfyrirliða eftir að Kylian Mbappé hætti að gefa kost á sér í franska landsliðið.

Kanté er 33 ára gamall og kom aftur inn í landsliðið í maí síðastliðnum eftir að hafa ekki spilað í franska landsliðsbúningnum í næstum því tvö ár.

Hann var lykilmaður í heimsmeistaraliði Frakka 2018 og silfurliðinu á EM 2016.

Kanté lék einmitt sinn fyrsta landsleik árið 2016 eftir að hafa slegið í gegnum með Englandsmeisturum Leicester City. Hann varð einnig Englandsmeistari með Chelsea tímabilið eftir.

Kanté yfirgaf Chelsea árið 2023 þegar samningur hans rann út og samdi við Al-Ittihad í Sádí-Arabíu þar sem hann hefur spilað síðan.

Kanté hefur spilað alls 63 landsleiki og skorað í þeim tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×