Fótbolti

Sá sem beit mót­herja mætir ekki Ís­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Milutin Osmajic fékk átta leikja bann fyrir þetta bit.
Milutin Osmajic fékk átta leikja bann fyrir þetta bit. Getty/Dave Howarth

Milutin Osmajic, samherji Stefáns Teits Þórðarsonar hjá enska B-deildarliðinu Preston, mun ekki mæta Stefáni á laugardaginn þegar Svartfjallaland og Ísland eigast við í Þjóðadeildinni í fótbolta.

Osmajic var í byrjunarliði Svartfellinga í september þegar þeir töpuðu 2-0 fyrir Íslandi á Laugardalsvelli.

Hann var hins vegar ekki valinn í hópinn núna en Osmajic var að ljúka átta leikja banni á Englandi fyrir að bíta Owen Beck, leikmann Blackburn, eftir að Beck var rekinn af velli í leik í september.

Svartfellingar eru einnig án miðvarðarains reynslumikla og öfluga Stefan Savic, sem um árabil lék með Atlético Madrid, en þeir Marko Vesovic hafa verið frá keppni vegna meiðsla.

Þá er hinn 18 ára gamli Vasilije Adžić, sem er leikmaður Juventus, ekki með vegna meiðsla.

Leikur Svartfjallalands og Íslands hefst klukkan 17 á laugardag, í beinni og opinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×