„Ég vil ekkert fara út í öll smáatriði en ég var kýldur af leikmanni í hinu liðinu, hann kom yfir á minn vallarhelming. Hann var eitthvað að tala og svo lét hann höggin tala, en það er allt í góðu núna,“ sagði McCauley um DeAndre Kane sem kýldi hann í andlitið.
Næsti leikur liðanna merktur á dagatalið
Þeir rifust mikið á meðan leik stóð en töluðu ekkert saman eftir á.
„Nei auðvitað ekki, við skildum þetta bara eftir á vellinum en héðan í frá hef ég horn í hans síðu (e. chip on my shoulder) og hlakka til að mæta þeim aftur.“
16. janúar 2025 er þar með merktur á dagatal Hattar því þá kemur Grindavík í heimsókn.
„Já maður, ég sleiki út um við tilhugsunina (e. licking my chops). Ég merki þennan leik á dagatalinu, ekki spurning, get ekki beðið.“
Tókust ekki í hendur eftir leik
Eftir leik gengu leikmenn Hattar rakleiðis af velli og tóku ekki í hendur leikmanna Grindavíkur.
„Það var mikil vanvirðing frá hinu liðinu í dag. Mér fannst engin virðing borin og það er algjör óþarfi, þegar við erum að spila gegn hvoru öðru áttu að virða andstæðinginn sama hvernig fer. Í dag létu þeir eins og þeir væru okkur æðri, eins og þeir væru betri en við. Ef það er svoleiðis sem þeir ætla að haga sér þá þurfum við að borga það til baka.“
Hattar-menn hafa núna heila viku til að jafna sig á tapinu áður en Njarðvík kemur í heimsókn.
„Þetta var hrikalegt tap fyrir okkur, eitthvað sem við þurfum að gleyma fljótt. Nú hefst bara vinnan aftur, við látum þetta ekki hafa áhrif á okkur og erum mun betri en við sýndum í dag,“ sagði McCauley að lokum.