Fótbolti

Sænskir fjöl­miðlar segja Mbappé grunaðan um nauðgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe virðist hafa komið sér í vandræði í heimsókn sinni til Svíþjóðar.
Kylian Mbappe virðist hafa komið sér í vandræði í heimsókn sinni til Svíþjóðar. Getty/Gonzalo Arroyo Moreno

Sænska lögreglan hefur hafið rannsókn á meintri nauðgun í tengslum við heimsókn franska fótboltamannsins Kylian Mbappé til Svíþjóðar.

Samkvæmt upplýsingum Aftonbladet þá er Mbappé talinn vera gerandi í málinu. Expressen segir líka að franska stórstjarnan liggi undir grun.

Fréttin um Kylian Mbappé í Aftonbladet.@Sportbladet

Mbappé var ekki með franska landsliðinu í þessum landsliðsglugga en skellti sér aftur á móti í tveggja daga skemmtiferð til Svíþjóðar. Mbappé og vinir hans heimsóttu bæði veitingastaði og næturklúbba í ferð sinni.

Meint nauðgun á að hafa farið fram á fimmtudaginn. Mbappé yfirgaf Svíþjóð á föstudaginn.

Lögreglan var mætt fyrir utan hótelið sem Mbappé gisti á í Stokkhólmi. Rannsókn stendur yfir og sænsku miðlarnir fá ekkert staðfest frá upplýsingafulltrúa lögreglunnar.

Mbappé fór inn á samfélagsmiðla og sagði þetta vera falskar fréttir og talaði um þá undarlegu tilviljun að svona aðför að sér í fjölmiðlum komi einmitt upp þegar taka á fyrir mál hans á móti Paris Saint Germain.

Mbappé segir PSG skulda sér mikinn pening eftir að félagið hætti að borga honum laun þegar hann gaf það út að hann yrði ekki áfram hjá félaginu.

Mbappé er ein stærsta íþróttastjarna heims enda af flestum talinn vera einn besti knattspyrnumaður heims. Hann spilar með Real Madrid á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×