„Þetta er vikan sem þú hættir tilraunastarfsemi. Hérna þarftu að fara að vinna,“ sagði Daníel fyrir fyrsta leik kvöldsins en hann og Mist Reykdal Magnúsdóttir fylgdust með gangi mála í beinni útsendingu og greindu stöðuna jafnóðum.
Fyrsti leikur umferðarinnar var í brennidepli enda mættust þar ósigruðu liðin tvö, Jötunn Valkyrjur og Venus, í spennandi baráttu um 1. Sætið. Viðureigninni lauk með sigri Venusar 13-9 og liðið trónir því eitt á toppi Míludeildarinnar með 8 stig.
Klutz og Valkyrjur fylgja á eftir með 6 stig en Valkyrjurnar máttu sætta sig við fall úr fyrsta sæti í það þriðja eftir leiki umferðarinnar.
Úrslit 4. umferðar:
Jötunn Valkyrjur - Venus 9 - 13
ControllerZ - GoldDiggers 5 - 13
Guardian Grýlurnar - Höttur 7 - 13
Þór - Klutz 2 - 13
Mist og Daníel bentu á að viðureign ControllerZ og GoldDiggers væri, eins og leikur toppliðanna, mikilvægur fyrir stigatöfluna en þessi lið voru einnig jöfn að stigum eftir 3. umferð.

Með sigri sínum komu GoldDiggers sér í 4. sæti deildarinnar en þegar hér er komið við sögu sagði Mist að hún teldi óhætt að segja að þrjú efstu liðin núna, Venus, Klutzog Jötunn Valkyrjur séu örugg í umspil. Stóra spurningin er hvaða lið tryggi sér fjórða og síðasta sætið þar.
Míludeildin heldur áfram á föstudaginn, 4. október, þegar Þór tekur á móti ControllerZ, Jötunn Valkyrjur mæta GoldDiggers, Höttur og Klutz takast á og botnlið Guardian Grýlanna og topplið Venus mætast.
