Skoðun

Stöðvum vopnakaupin – skrifum undir

Hildur Þórðardóttir skrifar

Í fjárlagafrumvarpinu 2025 er gert ráð fyrir tæplega sjö milljarða framlagi í hernað í Úkraínu. Sjö milljarðar af íslenskum skattpeningum, sem þýða að 25 þúsund eru tekin af hverjum skattgreiðanda á ári næstu fjögur árin. Nú þegar höfum við lagt níu milljarða síðustu þrjú árin, sem þýðir 16 milljarðar í stríð sem er algjör óþarfi og gæti verið löngu búið.

Pútín og Zelensky hafa fyrir löngu samið um frið. Það gerðu þeir í Tyrklandi sumarið 2022. En Vesturlönd tóku ekki í mál að hætta stríðinu og Tony Blair flaug í snatri til Úkraínu til að skipa Zelensky að halda stríðinu áfram, þótt það kostaði að Úkraína yrði lögð í eyði. Í staðinn fékk Zelensky breskan ríkisborgararétt til að hann hafi samastað þegar hann verður búinn að eyðileggja Úkraínu.

Bandaríkin og Bretland hafa nefnilega mikilla hagsmuna að gæta að missa ekki austurhéruð Úkraínu til Rússlands. Bresk og bandarísk olíufyrirtæki fjárfestu marga milljarða punda og dollara í úkraínsk gasfyrirtæki fyrir 2014, því þau ætluðu sér að ná Evrópumarkaðinum af hinu rússneska Gazprom. Auk þess stórgræða vopnaframleiðendur á því að við séum í tómri meðvirkni að kaupa vopn inni í þessa hýt.

Hver önnur ástæða gæti verið fyrir því að Úkraínumenn vantar alltaf ný og ný vopn en að hluti þeirra er seldur á svörtum markaði áfram til annarra landa og hryðjuverkahópa? Hvað var úkraínska flugvélin sem hrapaði í Grikklandi, annars að gera, full af vopnum á leið frá Úkraínu til Bangladesh?

Pútín réðist ekki inn í Úkraínu af því hann fór vitlaustu megin framúr einn daginn. Það er heldur ekki rétt að Rússar hafi verið að herja á Úkraínumenn síðustu 10 árin. Hið rétta er að Vesturlönd vildu seilast í úkraínskar eignir, ákváðu að koma á stjórnarskiptum í Úkraínu árið 2014 og teygja Nató þangað inn þrátt fyrir loforð um annað.

Ekki frekar en Bandaríkjamenn sættu sig við langdrægar flaugar á Kúbu, sættu Rússar sig við langdrægar flaugar í túnfætinum í Úkraínu. Myndum við sætta okkur við að hafa sprengjur sem beint er að okkur á skipi í Hvalfirði?

Við Íslendingar eru eingöngu að lengja í hengingaról Úkraínumanna með því að styrkja þennan ónauðsynlega stríðsrekstur. Ekki bara það heldur erum við með vopnakaupunum að stuðla að dauða fleira fólks, bæði Úkraínu megin og Rússlands megin. Viljum við skapa okkur þannig karma?

Við höfum aldrei verið spurð hvort við viljum kaupa vopnin. Við Íslendingar höfum alltaf verið stolt af því að vera herlaus og vopnlaus þjóð sem stendur alltaf með friði. Við tölum með stolti um fund Reagans og Gorbatsjovs á 9. áratugnum sem var upphafið að þýðu kaldastríðsins. Af hverju beitum við okkur ekki frekar meira í friðarviðræðum?

Það setur okkur í stórhættu að taka þátt í þessu stríði. Við, þjóðin sem valdi að vera friðlaus, erum nú orðin skotmark.

Þess vegna höfum við sett af stað undirskriftarsöfnun til að hvetja forseta til að vísa frumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hvet alla til að kynna sér málið og skrifa undir.

Listann má finna á austurvollur.is.

Höfundur er rithöfundur og fyrrum forsetaframbjóðandi.




Skoðun

Sjá meira


×