Verstappen hefur aldrei farið leynt með það að hann ætli sér ekki að eiga langan feril í Formúlu 1 og eltast við öll þau met sem í boði eru. Það séu aðrir hlutir sem hann vilji einnig afreka í akstursíþróttum.
Hollendingurinn fékk refsingu um helgina fyrir að blóta á blaðamannafundi Formúlu 1 fyrir kappaksturinn í Singapúr, þar sem Verstappen kom annar í mark, rúmum tuttugu sekúndum á eftir Lando Norris sem fagnaði sigri. Fyrir blótið var Verstappen gert að sinna samfélagsþjónustu, en hann hefur beðist afsökunar á orðum sínum.
Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina er ljóst að Hollendingurinn er orðinn þreyttur á ýmsu sem fylgir því að vera ökumaður í Formúlu 1. Hann segir að hann eigi ekki mikla þolinmæði eftir og að refsingar sem þessar geti hjálpað honum að taka ákvarðanir um framtíð sína.
„Svona hlutir eiga klárlega þátt í því að ákveða hvað ég geri í framtíðinni,“ sagði Verstappen aðspurður út í refsinguna. „Þegar maður fær ekki að vera maður sjáfur og þegar maður þarf að eiga við alla þessa skrýtnu hluti.“
„Ég er á þeim stað á ferlinum að ég vil ekki þurfa alltaf að vera að eiga við svona hluti. Það er mjög þreytandi. Fyrir mér er þetta engin leið til að halda áfram í íþróttinni, það er klárt.“