Formúla 1

Vill vinna titilinn á eigin for­sendum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hefur trú á eigin getu.
Hefur trú á eigin getu. Vísir/Getty Images

Lando Norris, ökumaður McLaren í Formúlu 1, segist vilja vinna heimsmeistaratitilinn með því að keyra hraðar og betur en Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari og ökumaður Red Bull.

Fyrr í dag var greint frá því að McLaren hefði beðið Oscar Piastri, samherja Norris, að gera kollega sínum greiða í komandi kappakstri í þeirri von um að Norris skáki Verstappen og stöðvi þar með einokun hans í Formúlu 1.

Norris segist þakklátur fyrir þá ákvörðun McLaren að leggja allt í sölurnar til að hann verði heimsmeistari en hann segist ekki vilja „fá heimsmeistaratitilinn gefins.“

„Það væri frábært að verða meistari og maður er á bleiku skýi en til lengri tíma litið held é gað yrði ekki stoltur: Það er ekki þannig sem þú vilt vinna heimsmeistaratitilinn.“

Norris er 62 stigum á eftir Verstappen þegar það eru átta keppnir eftir af Formúlu 1 tímabilinu og 232 stig í pottinum. McLaren er þá aðeins átta stigum á eftir Red Bull í keppni bílasmíða.

„Ég vil vinna titilinn með því að berjast við Max og hafa betur. Með því að sigra keppinautinn get ég sýnt fram á að ég er sá besti á kappakstursbrautinni. Þannig vil ég sigra,“ bætti Norris við.

Kappakstur helgarinnar í Formúlu 1 fer fram í Aserbaídsjan á sunnudaginn kemur og er í beinni á Vodafone Sport. Útsending hefst klukkan 10.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×