Í húsi við Laufskóga eru mæðgurnar Anna Halla og mamma hennar, Guðlaug Berglind, sem er 87 ára með þrjár hænur í garðinum. Hænurnar eiga heima í hænsnakofa en fá að vera lausar út í garði þegar þannig er. Nýlega gerðist það að Sóley, ein af hænunum hvarf, sennilega vegna hræðslu við ókunnugan hund, sem kom í heimsókn. Það var gerð dauðaleit að henni í átta daga í Hveragerði og næsta nágrenni, en svo birtist hún allt í einu eins og ekkert hefði í skorist.
„Það var æðislegt, ég alveg mamma, mamma, mamma, sérðu hver er við stólinn kallaði ég, það var æðislegt að sjá hana,” segir Anna Halla Hallsdóttir, hænsnaeigandi í Hveragerði og heldur áfram.
„Ég labbaði út um allan bæ og sagði púdda, púdd, skilurðu, en það er ekki ólíklegt að hún hafi verið hrædd, hjúfrað sig einhvers staðar en ekki langt frá. Og við erum að segja að þegar að vindurinn var um daginn þá hafi hrists almennilega upp í henni og þá bara vildi hún fara heim, bara heim í hlýjuna.”

En hvert halda mæðgurnar að Sóley hafi farið?
„Við vitum það ekki. Það var búið að leita í öllum görðum og alls staðar því við vildum að minnsta kosti finna af henni hræið ef hún hefði dáið,” segir Guðlaug Berglind Björnsdóttir, 87 ára hænsnaeigandi í Hveragerði og bætir strax við.
„Og ég ætla að segja þér, þetta eru allt karakterar og þetta eru gæludýrin okkar, þetta er ekki eins og við séum að reka hænsnabú, þrjár litlar púddur til að hafa gaman af og hafa þær hlaupandi hér um garðinn er æðislegt.”
En mælir Guðlaug með því að fólk fái sér hænur í garðinn sinn?
„Já, þeir sem hafa svona aðstöðu að lofa þeim að vera frjálsar. Fyrsta verkið á morgnana er að hleypa þeim út og síðasta á kvöldin er að loka.”