97 milljónir veittar
Nýr tónlistarsjóður veitti í fyrsta sinn styrki úr öllum deildum sjóðsins. Alls voru 97 milljónir veittar til 111 verkefna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði styrkhafa og María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar, kynnti nýjungar sjóðsins og umbætur á umsóknarferlinu. Tónlistarmaðurinn Mikael Máni spilaði lagið Expiration Date fyrir viðstadda.
„Það er mikið fagnaðarefni að sjá hversu mörg spennandi verkefni hlutu styrk og ekki síður er það gleðiefni að heyra frá úthlutunarnefndum hve mörg og efnileg verkefni sóttu um. Sú staðreynd að það sé erfitt að velja hver hljóti styrk er mikilvæg vísbending um gróskuna í íslensku tónlistarlífi.
Tónlistarmiðstöð er frábær umgjörð sem býður upp á fjölbreytta þjónustu og tækifæri sem ég hvet sem flesta til að kynna sér. Þar er til dæmis boðið upp á ráðgjöf við styrkumsóknir og þangað má sækja innblástur og fagþekkingu frá einvala sérfræðingum,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðherra í ræðu sinni.

Nýdönsk og ADHD fá tvær milljónir
Alls bárust 364 styrkumsóknir en til úthlutunar voru sem áður segir 97 milljónir króna. Veittir voru styrkir til 111 verkefna, þar af fjórir langtímasamningar.
„Kammerhópurinn Nordic Affect fær 2.5 m.kr.til tveggja ára fyrir tónleikadagskrá hópsins árin 2025-2026.
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fær 6 m.kr. til þriggja ára, 2024-2026, vegna verkefnisins „Sjálfbært showcase - framtíðarstefna Iceland Airwaves“.
Tónskáldafélag Íslands hlýtur 4 m.kr. til tveggja ára, 2025-2026 vegna Myrkra músíkdaga.
Hlutmengi hlýtur 3 m.kr. til tveggja ára, 2024-2025, vegna tónleikadagskrár í Mengi.
Hæstu tónlistarstyrki úr deild frumsköpunar og útgáfu fá Daníel Bjarnason, 2,9 milljónir króna og Nýdönsk, 2 milljónir króna.
Hæstu flytjendastyrki úr deild lifandi flutnings fá Kammersveitin Elja með 1,5 m.kr. og Mugison, Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, Helgi Rafn Ingvarsson og Hljómsveit Akureyrar hljóta 1 m.kr. hvert.
Hæstu viðskiptastyrki úr deild þróunar og innviða hljóta VibEvent, OPIA Community, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, MetamorPhonics, WindWorks í Norðri, Reykjavík Early Music Festival, Múlinn Jazzklúbbur, LungA, Ascension MMXXIV og BIG BANG upp á 1 m.kr. hvert.
Hæstu markaðsstyrki úr útflutningsdeild hlýtur ADHD upp á 2 m.kr. og viibra upp á 1.5 m.kr,“ segir í fréttatilkynningu frá Tónlistarmiðstöð.
Frekari upplýsingar um veitta styrki og skiptingu á milli deilda Tónlistarsjóðs má nálgast hér.
Hér má sjá myndir frá viðburðinum:















