Í sumar ætlum við að kynnast nokkrum af þeim fjölda spennandi golfvalla sem hægt er að finna víða um land og gaman væri að prófa í sumarfríinu en hægt er að leika golf á yfir 60 völlum hér á landi. Húsafellsvöllur er golfvöllur vikunnar á Vísi.

Helsta einkenni Húsafellsvallarins er að flestar brautir hans liggja meðfram Kaldá og Stuttá og slá þarf yfir vatn á 9. holunni. Engar sandglompur eru á Húsafellsvelli en kringum völlinn má finna hraun og skóg og því má segja að þar sé að finna nægar áskoranir. Síðan má ekki gleyma hinu svokallaða „Húsafellsgati“ en það er oft sól og blíða í Húsafelli þótt það sé sólarlaust og vindur í næsta nágrenni.

Golfklúbbur Húsafells var stofnaður árið 1996 og verður því 30 ára eftir tvö ár. Eftir að hafa legið í dvala í nokkur ár tók hópur velunnara hans höndum saman, í samvinnu við stjórnendur í Húsafelli, og endurvöktu starfsemina.

Um 65 félagsmenn eru í klúbbnum og eru þeir duglegir að spila á vellinum. Einnig er alltaf að aukast að vinahópar komi í „golfferð“ og gisti á Hótel Húsafelli eða á tjaldstæðinu. Erlendir ferðamenn, sem gista á hótelinu, eru einnig margir spenntir fyrir golfvellinum og taka hring af og til.
Eftir hring er vinsælt að kíkja í mat og drykk á Bistróinu sem er rétt við völlinn en um er að ræða notalegan veitingastað sem býður upp á hádegisverðarhlaðborð og à la carte matseðil yfir sumartímann. Einn er tilvalið að fá sér drykk á Hótel Húsafelli eftir skemmtilegan hring.
Húsafellsvöllur er hannaður af Hannesi Þorsteinssyni golfvallaarkitekt. Völlurinn er par 72 og inniheldur 5992 metra af gulum teigum og 4110 metra af rauðum teigum.

Fjölbreytt ferðaþjónusta er í boði í Húsafelli. Þar má nefna afþreyingarlaugina Lindina sem er alltaf jafn notalegt að heimsækja og Giljaböð sem eru dásamleg hálendisslökun í einstöku landslagi. Í nágrenni Húsafells eru einnig fallegar gönguleiðir og ís- og hraunhellar.