Lík fjórtán ára gamallar stúlku fannst illa út leikið á lestarstöð í Landskrónu á þriðjudag. Lögreglan þar telur að henni hafi verið ráðinn bani. Hún fannst bundin á höndum og með áverka um allan líkamann.
Jafnaldra fórnarlambsins var handtekin sama dag, grunuð um aðild að dauða stúlkunnar. Hún er talin hafa þekkt fórnarlambið. Annað ungmenni á aldrinum fimmtán til átján ára var einnig handtekið.
Stúlkan sem nú hefur verið handtekin neitaði allri sök þegar gæsluvarðhaldskrafa yfir henni var tekin fyrir í dag. Hún kom fyrir dóminn í gegnum fjarfundarbúnað, að sögn sænska blaðsins Dagens nyheter. Tomas Olvmyr, saksóknari, færði rök fyrir því að hætta væri á að stúlkan reyndi að spilla sönnunargögnum eða leggja stein í götu rannsóknarinnar ef hún sætti ekki varðhaldi.
Olvmyr segir að stúlkurnar tvær sem voru handteknar þekkist en séu ekki skyldar. Við yfirheyrslur hafi þær viðurkennt þátt í málinu. Þriðji sakborningurinn er sakaður um að hylma yfir glæp.
Umfangsmiklar lögregluaðgerðir hafa átt sér stað í Landskrónu eftir að stúlkan fannst látin, þar á meðal hafa kafarar leitað í síki í miðbænum. Þá eru tveir hnífar sagðir hafa fundist nærri staðnum sem líkið fannst. Lögreglan rannsakar hvort þeir tengist drápinu.