Southgate tók við enska landsliðinu haustið 2016 af Sam Allardyce sem var ráðinn til tveggja ára eftir að Roy Hodgson var látinn fara fyrr um sumarið þegar England féll úr leik í 16-liða úrslitum EM gegn Íslandi.
Stóri Sam sagði hins vegar af sér eftir aðeins 67 daga í starfi og Southgate var kallaður til eftir að hafa náð góðum árangri með u21 árs landsliðið.
HM 2018 í Rússlandi var fyrsta stórmót Englendinga undir hans stjórn, þar fór liðið alla leið í undanúrslit og vann loks vítaspyrnukeppni (í 16-liða úrslitum gegn Kólumbíu) eftir að hafa fallið úr leik eftir vítaspyrnukeppni á þremur heimsmeistaramótum í röð.
Á síðustu tveimur Evrópumótum hefur England farið alla leið í úrslit en tapað í bæði skipti. Á heimavelli 2020/21 gegn Ítalíu og nú síðasta sunnudag gegn Spáni.
Southgate fór fáum orðum um framtíðina eftir tapið á sunnudag og sagðist bara þurfa að eiga samræður við sitt fólk áður en ákvörðun yrði tekin.
Ákvörðunin var svo tilkynnt af enska knattspyrnusambandinu rétt í þessu og Southgate skrifaði kveðju til stuðningsmanna.
After 102 games and almost eight years in charge, Gareth Southgate has announced he is to leave his role as manager of the #ThreeLions.
— England (@England) July 16, 2024
„Sem stoltur Englendingur hefur það verið minn mesti heiður að spila fyrir og þjálfa enska landsliðið. Þetta hefur þýtt mikið fyrir mig og ég hef lagt mig allan fram. En nú er kominn tími á breytingar, nýjan kafla… Ég er og verð alltaf aðdáandi enska landsliðsins. Ég hlakka til að horfa og fagna því þegar liðið heldur áfram að skapa minningar fyrir þjóðina, tengja hana tilfinningaböndum og veita henni innblástur – eins og við vitum að það getur. Takk England, fyrir allt saman,“ var meðal þess sem Southgate skrifaði í kveðjunni.
Fréttin hefur verið uppfærð.