Það var mikið spáð og spekúlerað hvaða númer Mbappé myndi fá hjá Real Madrid. Hann hefur leikið í treyju númer sjö hjá PSG síðustu ár og númer tíu hjá franska landsliðinu.
Þau númer voru bæði upptekin hjá Real Madrid, Vinícius Jr. tók sjöuna eftir að Eden Hazard fór frá félaginu í fyrra, Luka Modric er númer tíu og skrifaði nýlega undir eins árs samningsframlengingu hjá félaginu.
Mbappé fylgir á eftir goðsögnum sem hafa klæðst númerinu. Karim Benzema bar níuna í 13 ár og varð næst markahæsti leikmaður í sögu Real Madrid á meðan. Þar á undan var Cristiano Ronaldo númer níu í eitt ár en skipti yfir í sjöuna eftir að Raul fór frá félaginu. Nafni hans frá Brasilíu var einnig númer níu, sem og Alfredo di Stefano.
Mbappé mun klæðast níunni í fyrsta sinn á leikmannakynningu Real Madrid þann 16. júlí næstkomandi.
👕🔢 Changes with shirt numbers in the squad.#RealMadrid
— Real Madrid C.F. 🇬🇧🇺🇸 (@realmadriden) July 10, 2024
Samhliða þessu tilkynnti Real Madrid fleiri númerabreytingar hjá leikmönnum. Eduardo Camavinga mun taka treyju númer sex eftir að Nacho Illaramendi fór frá félaginu og Federico Valverde tekur áttuna af Toni Kroos. Með þeim á miðjunni verða Aurelien Tchouameni í treyju númer fjórtán og Arda Guler í treyju númer 15.