Upp­gjörið og við­töl: KR-Stjarnan 1-1 | Axel Óskar tryggði heima­mönnum stig

Andri Már Eggertsson skrifar
Heimamenn björguðu stigi í blálokin.
Heimamenn björguðu stigi í blálokin. Vísir/Hulda Margrét

KR og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli og KR er án sigurs í síðustu sex leikjum. Allt benti til þess að Stjarnan myndi vinna 0-1 en Axel Óskar Andrésson jafnaði í uppbótartíma.

Eins og í síðustu leikjum hjá KR þá gerðist lítið fyrstu tuttugu mínúturnar. Venju samkvæmt fór allt í gegnum Aron Sigurðarson en Mathias Brinch Rosenorn sem fékk traustið í marki Stjörnunnar eftir flotta frammistöðu í Mjólkurbikarnum varði allt sem kom á markið.

Eftir að hafa verið sá eini sem brenndi af vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni gegn Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins síðasta miðvikudag kom Haukur Örn Brink Stjörnunni yfir á Meistaravöllum.

Róbert Frosti Þorkelsson var virkilega klókur þegar hann tók aukaspyrnu við vítateig fljótt og gaf á Hauk sem hamraði boltanum í markið og Guy Smit átti ekki möguleika á að verja.

Staðan í hálfleik var 0-1

Mathias Brinch Rosenorn, markmaður Stjörnunnar, var nálægt því að skora frá eigin vítateig. Mathías sparkaði boltanum fram og boltinn skoppaði yfir Guy Smit markmann KR sem fór út á móti en lukkan var með Guy í liði þar sem boltinn rúllaði framhjá.

Þegar að sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Axel Óskar Andrésson eftir hornspyrnu sem endaði á fjærstöng þar sem hann var mættur og skoraði. Niðurstaðan 1-1 jafntefli.

Atvik leiksins

Stjarnan fékk aukaspyrnu við teiginn og flest allir hefðu stillt sér upp og reynt skot á markið en Róbert Frosti Þorkelsson tók aukaspyrnuna fljótt og gaf á Hauk Örn Brink sem skoraði fyrsta mark leiksins. Virkilega klókt hjá Róberti sem var fljótur að hugsa.

Stjörnur og skúrkar

Haukur Örn Brink var stjarna gestanna í dag. Haukar lét það ekki á sig fá að hafa brennt af víti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og skoraði mark Stjörnunnar sem skilaði þó aðeins einu stigi.

Mathias Brinch Rosenorn hélt sæti sínu í markinu eftir að hafa staðið sig vel í síðasta leik. Mathias þakkaði traustið og átti frábæra markvörslu í fyrri hálfleik. 

Sjálfstraust KR-inga er í molum og þeir virðast ekki geta keypt sér sigur sama hver þjálfar liðið. KR hefur ekki tekist að ná í sigur í síðustu sex leikjum og liðið hefur ekki unnið á heimavelli.

Stefán Árni Geirsson kom inn á sem varamaður og skartaði ansi skrautlegu hárbandi líkt og þekkist í Karate kid kvikmyndunum. KR er í mikilli krísu eins og sakir standa og þá er það ansi bjánalegt og taktlaust að reyna vera töff með svona hárband.

Dómarinn

Elías Ingi Árnason dæmdi leik dagsins. Uppbótartíminn var hvorki meira né minna en átta mínútur sem telst ansi sjaldgæft í Bestu deildinni. Þetta kom ansi mikið á óvart þó Birgir Steinn Styrmisson, leikmaður KR, hafi legið nokkrum sinnum og farið út af tók það ekki svo langan tíma.

Það var erfitt að sjá hvort boltinn hafi verið inni í marki KR-inga en það var allavega nóg að gera hjá dómarateyminu. 

Elías Ingi fær 6 í einkunn.

Stemning og umgjörð

Það var rjómablíða í Vesturbænum. Völlurinn var nokkuð flottur og áhorfendur voru í stuði. Sólin skein ekki á stúkuna og því stóðu margir við auglýsingaskiltið á móti stúkunni.

„Í fyrsta skipti sem menn hafa náð að týna saman hverja einustu sekúndu“

Jökull Elísabetarson var svekktur eftir leikVísir/Anton Brink

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir að hafa fengið á sig jöfnunarmark í uppbótartíma.

„Ég sá ekki boltann inni. Það var svekkjandi að fá á sig mark á þessum tíma. Mér fannst átta mínútna uppbótartími skrítið og það yrði sennilega í fyrsta skipti sem menn hafa náð að týna saman hverja einustu sekúndu en við hefðum átt að standa þetta af okkur,“ sagði Jökull eftir leik og hélt áfram að tala um uppbótartímann.

„Þeir náðu að týna þetta saman til þess að lengja þetta og það kom mér á óvart. Það eru allir svekktir og það munaði litlu að hafa náð að halda markinu hreinu.“

Jökull hafði ekki áhyggjur af því að tap í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og að hafa fengið á sig jöfnunarmark á 97 mínútu í sömu vikunni myndi hafa áhrif á liðið.

„Nei ég hef engar áhyggjur. Við erum að fara spila tvo Evrópuleiki og við munum núllstilla okkur eftir þetta og lögum það sem mátti fara betur,“ sagði Jökull að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira