„Vorveiðin er áhugavert konsept. Hún er svolítið umdeild. Á að vera að tosa í þessi grey á vorin?“ spyr Heizi meðal annars í þættinum. Hann fær álit þó nokkurra veiðimanna en sitt sýnist hverjum þó álit flestra sé að hún gangi svo framarlega sem hún fari fram með ábyrgum hætti.
Þá lenti Heizi í einhverju við Eldvatn í þættinum sem hann hefur ekki lent í í mörg ár. „Við grilluðum okkur pizzur áðan í kaffinu en svo var mér bara brátt í brók,“ segir Heizi í þættinum. Þá voru góð ráð dýr.
Hyggst koma víða við
Í samtali við Vísi segir Heizi að komið verði víða við í þáttunum sem verða alls fjórir talsins. Sjálfur segist Heizi fyrst og fremst mikill áhugamaður um veiði en hann byrjaði sjálfur að eigin sögn seint að veiða og fór þá með föður sínum Atla Bergmann, sem er reynsubolti þegar kemur að veiðum.
„Þetta lá vel fyrir mér strax, en í þriðja kasti veiði ég geggjaða kuðungableikju á Þingvöllum. Ég fann bara að það brotnaði eitthvað inni í mér og eftir þetta var ekki aftur snúið,“ segir Heizi. Hann segir ekkert líkt og veiði.
„Það eru tengslin við náttúruna og það er ekkert sem hleður mann meira en þau. Að vera úti, vera með tilgang. Fara á stað sem þú hefur aldrei farið á og myndir aldrei fara á, þar sem þú sérð allskonar fossa og gljúfur og miklu meira. Veiðin er ekki bara bassabox og bjór, það er líka þessi andlega vegferð, að vera úti í náttúrunni.“