Tónlist

Bauð pabba að syngja með sér um ís­lensku sumargaslýsinguna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þórhallur og Þórhallur hafa loksins gefið út sitt fyrsta lag saman.
Þórhallur og Þórhallur hafa loksins gefið út sitt fyrsta lag saman.

Feðgarnir og nafnarnir Þórhallur Þórhallsson og Laddi gefa í dag út sitt fyrsta lag saman. Að sögn Þórhalls er lagið á léttum nótum um íslensku gaslýsinguna sem felst í voninni um almennilegt sumar. Sumarlagið í ár að sögn Ladda.

„Lagið heitir einfaldlega „Það er sumar“ og þetta er létt grín að sumrinu. Hvernig við erum pínu alltaf í afneitun með þetta sumar hérna á Íslandi,“ segir Þórhallur yngri hlæjandi í samtali við Vísi. Þórhallur hefur undanfarin ár farið mikinn á sviði uppistandsins og stígið í fótspor föður síns.

„Ég ætlaði að gefa þetta lag út í fyrra og var búinn að taka það upp og allt saman. Ég söng viðlagið sjálfur, hlustaði svo á þetta og þetta var bara það versta sem ég hef heyrt, þannig ég þurfti að grafa þetta niður og ætlaði aldrei að hugsa um þetta aftur,“ segir Þórhallur hlæjandi.

Hann ákvað í ár að gefa þessu annan séns og kíkti á upptökuna. Þórhallur segir þetta ekki hafa verið eins slæmt og hann minnti, þannig hann hafi ákveðið að finna einhvern annan til að syngja viðlagið á meðan hann rappar.

„Fyrst ætlaði ég að finna söngkonu þangað til ég rankaði við mér, auðvitað á pabbi að gera þetta með mér! Hann var líklega og nálægt mér, ég hugsaði ekki einu sinni um hann fyrst en auðvitað var enginn annar sem hefði getað gert þetta betur.“

Þórhallur segir pabba sinn ekki hafa verið lengi að hugsa sig um eftir að hafa fengið að heyra lagið. Laddi hafi verið ánægður með þetta og handviss um að hér sé fram kominn sumarsmellurinn í ár.

„Kallinn negldi þetta alveg. Þetta er mjög skemmtilegt, við erum auðvitað bara svolítið að gaslýsa okkur með þetta sumar held ég,“ segir Þórhallur hlæjandi. „Ellefu gráður og sól og við erum alltaf mætt út í stuttbuxunum, eins og það á að vera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×