Þetta er meðal þess sem fram kemur í níunda þætti Af vængjum fram, skemmtiþætti á Vísi í tilefni af forsetakosningum. Þar setjast forsetaframbjóðendur niður og gæða sér á sífellt sterkari kjúklingavængjum á milli þess sem þeir ræða lífið og tilveruna í einlægu spjalli.
Ekki með magann í þetta
„Ég á dálítið erfitt með sterkan mat, það fer ekkert sérstaklega vel í mig, það er ástæðan fyrir því að ég sagði ekki alveg já á stundinni, en ég er kominn,“ segir Baldur.
Baldur fer yfir víðan völl, ræðir meðal annars matseldina á heimilinu og hvor eldar oftar á heimilinu, hann eða Felix Bergsson. Þá ræðir hann hvað hefur komið sér mest á óvart við að vera í framboði og umræðuna um djamm hans og för á hommabar. Baldur segir í gríni að þeir sem hafi birt myndir af honum á barnum ættu að komast í myndasafn af honum frá menntaskólaárunum á Laugarvatni.
Hann segist vera vanur því að tala ekki um sjálfan sig í akademíunni og því fylgi mikil breyting að vera í framboði. Baldur nefnir röð spurninga sem hann hefur fengið í framboðinu og segist ekki hafa tölu á því hversu oft hann hafi sagt frá því hvernig það hafi verið þegar hann kom út úr skápnum.
„Ég hef aldrei farið í jafn mikla sálfræðigreiningu á sjálfum mér og í þessu framboði,“ segir Baldur meðal annars. Þá ræðir hann námsárin í Bretlandi, þegar hann langaði að verða fornleifafræðingur og hvernig áhrif það hefur haft að vera svo lengi í kosningabaráttu.
Horfa má á fleiri þætti af skemmtiþættinum Af vængjum fram á sjónvarpsvef Vísis.